140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra hv. þingmann lýsa því að hann sé sammála þessum tillögum og rétt að nota tækifærið og rifja upp að þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þingmaður hefur sýnt skynsemi í því að taka undir efnahagstillögur framsóknarmanna. Hann skar sig úr í þinginu á sínum tíma þegar hann tók undir tillögur framsóknarmanna um mikilvægi þess að ráðast í skuldaleiðréttingu. Það er óhætt að segja að þær tillögur hafa sannað gildi sitt svo það er hvatning í því fólgin að heyra hv. þingmann taka undir þessar tillögur líka.

Hv. þingmaður bendir á þá staðreynd að einungis 10% landsmanna falli í fyrsta skattþrepið eða það efsta. En nú er ríkisstjórnin einmitt með fjárlagafrumvarpi næsta árs að reyna að þoka fólki upp í efri skattþrep á mjög lúmskan hátt og misnota þar með þrepaskiptinguna. Hún er í rauninni ekki að gera annað en að hækka skatta þótt það sé kallað öðru nafni. Það er alltaf hættan við svona flækjur í skattkerfinu, til að mynda þrepaskiptinguna, þær geta í fyrsta lagi skapað óhagræði og ógegnsæi, eins og í þessu tilviki í fjárlagafrumvarpinu, og dregið einnig úr verðmætasköpun. Þar komum við að svarinu við spurningunni um hvernig skattkerfi við sjáum fyrir okkur. Skattkerfið verður að vera til þess fallið að ýta undir vinnu og verðmætasköpun. Einfaldara skattkerfi þar sem kjör fólks eru jöfnuð í gegnum persónuafslátt er best til þess fallið að hvetja til vinnu og verðmætasköpunar. Svo nota menn leiðir eins og vaxtabætur, barnabætur og aðrar millifærsluleiðir til að bæta enn stöðu þeirra sem standa höllum fæti eftir að þeir hafa greitt (Forseti hringir.) skatta af launum sínum.