140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott svar. Varðandi skuldaleiðréttinguna er alveg rétt að við vorum algerlega sammála um hvað bæri að gera. Við getum síðan deilt um það einhvern tíma síðar hvort kom á undan, hænan eða eggið.

Önnur tillaga vekur athygli mína sem er mjög í takt við mál sem ég mælti fyrir fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það er að óheimilt verði að reka ríkissjóð og sveitarfélög með halla nema í sérstökum undantekningartilfellum. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur kynnt sér tillögu okkar um að koma upp formlegum fjármálareglum sem eiga að jafna út hagsveifluna og þjóna svipuðum markmiðum og þetta. Er þingmaðurinn sammála þeirri nálgun sjálfstæðismanna eða er einhver blæbrigðamunur þarna á?