140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:32]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verð ég að játa að ég var staddur í útlöndum þegar hv. þingmaður kynnti þessa leið þannig að ég þekki hana ekki nema bara af afspurn og úr fjölmiðlum. (TÞH: Þetta kom allt í heimspressunni.) Hv. þingmaður bendir á að þetta hafi verið í heimspressunni og ég varð að minnsta kosti einhvers staðar var við þetta. Ég hallast að því að þarna sé töluverður samhljómur. Þetta kemur inn á það sem hlýtur að vera grundvallaratriði fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma, að reka ríkið á sjálfbæran hátt, skila því af sér í betri stöðu en það var þegar tekið var við. Svo geta komið upp undantekningartilvik þar sem skapast möguleikar á mjög dýrum fjárfestingum sem skila þeim mun meiri tekjum til lengri tíma litið. Ég nefni sem dæmi ef ríkið ætlaði að stofna olíufélag, íslenskt Statoil, menn mundu gera það væntanlega eingöngu vegna þess að þeir sæju fyrir sér að fá þeim mun meiri tekjur til lengri tíma litið.