140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra prýðisgóða ræðu og málefnalega yfirferð og þakka honum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það skiptir verulegu máli að slík umræða fari fram.

Það er oft töluverður munur á jafnaðarmannaflokkum og svo frjálslyndum flokkum eins og Framsókn. En svo eru auðvitað til frjálslyndir jafnaðarmenn, frú forseti, og ég held að það megi setja hæstv. ráðherra í þann flokk. Hann er svona frjálslyndur jafnaðarmaður og ekkert allt of fjarri Framsókn kannski í efnahagsmálum að sumu leyti í það minnsta. En þá velti ég fyrir mér, fyrst það er svona mikill samhljómur, hvert er þá vandamálið? Vandamálið virðist fyrst og fremst vera, frá bæjardyrum mínum og hæstv. ráðherra séð, framkvæmdin, alger skortur á framkvæmd þessarar stefnu. Hverju er þar um að kenna? Er það hæstv. forsætisráðherra, sem er kannski ekki jafnfrjálslyndur jafnaðarmaður og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, eða er það samstarfsflokkurinn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem hæstv. ráðherra hlýtur að taka undir með mér að er með töluvert aðra nálgun í efnahagsmálum en frjálslyndir flokkar eða frjálslyndir jafnaðarmenn?

Af því að hæstv. ráðherra nefndi að hann hefði viljað sjá meira um samkeppnishæfni atvinnulífsins þá er það alveg rétt, en þess er að vænta í atvinnutillögum sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson mun kynna fljótlega. Hann fór reyndar yfir sumar þeirra á síðasta þingi eins og ég nefndi í ræðu minni áðan en mun kynna uppfærða útgáfu fljótlega þar sem mikil áhersla er einmitt á samkeppnishæfni atvinnulífsins. Vonandi sér hæstv. ráðherra sér fært að taka þátt í þeirri umræðu líka.