140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma upp í andsvar því að þá gefur hann mér viðbótarræðutíma til að útskýra málið. Ég hafði ekki nema hálfa mínútu í skattana og gerði það því á nokkrum handahlaupum en fæ núna fjórar mínútur til viðbótar.

Það sem ég vísaði til var að í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um endurbætur á skattkerfinu, sem voru tvær, önnur kom út í sumar og hin sumarið 2010, var farið yfir hvaða möguleikar væru til þess að stoppa í göt í skattkerfinu, bæta tekjuöflunargetu skattkerfisins án þess að það fæli í sér verulegt velferðartjón.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að í skýrslunni í sumar var sérstaklega fjallað um möguleikann á því að reyna að búa til eitt virðisaukaskattþrep og verja þá þeim peningum sem inn kæmu vegna hækkunar á neðra þrepinu til tekjujafnandi aðgerða. Ég var mjög hrifinn af þeirri hugmynd og held að það væri mjög skynsamlegt að reyna að þróa hana áfram. Því miður var tekjuöflunarþörfin slík að við hefðum þurft að fara ofar en það var ákveðin skekkja í útreikningum, 20% hefðu ekki dugað til að ná óbreyttum tekjum, þurft hefði að fara í 21% í óbreyttar tekjur og í 22%, ef ég man rétt, til að ná nauðsynlegum tekjuöflunarþætti. Engu að síður held ég að um leið og við höfum tækifæri til út frá ríkisfjármálum eigum við að hugsa þetta mjög alvarlega. Ég held að þetta geti verið efnahagslega mjög skynsamlegt.

Hitt sem sjóðurinn benti á í skýrslunni í fyrra var að hinn hái persónuafsláttur á Íslandi væri ekki skynsamlegur. Hér lögðu þingmenn Framsóknarflokksins til hækkun hans. Persónuafslátturinn leiðir til ákveðinnar skekkju. Hann tekur mjög stóran hóp út úr skattgreiðsluhópnum og dregur úr tekjujöfnunaráhrifum skattkerfisins að öðru leyti, sem ég fæ tækifæri til að rekja betur í seinna andsvari mínu.