140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við erum almennt komin að þolmörkunum þegar kemur að skattlagningu á einstaklinga og er ekki skynsamlegt að hækka hana meira frá því sem nú er. Það eru hins vegar til hagræðingarleiðir þar innan. Ég vek t.d. athygli á því að hæsta skattþrepið er ekki mjög hátt í alþjóðlegu samhengi og þannig á það að vera.

Ég vek líka athygli á því að í tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem ég nefndi áðan, rökstyðja þeir sérstaklega að samhliða lækkun persónuafsláttar væri skynsamlegt að lækka skattþrepið í neðsta þrepinu. Síðan ræður samhengið milli neðsta skattþrepsins annars vegar og bótagreiðslna hins vegar því hvernig lágtekjufólki og bótaþegum reiðir af.

Ég hef verið mikill talsmaður þess og margheimtað á undanförnum missirum að gangi eftir, en það gengur því miður allt of hægt fyrir minn smekk, að komið verði á einu barnatryggingakerfi sem styðji við barnafólk óháð því hvers vegna foreldrar þeirra eru með lágar tekjur, því að það kerfi sem við höfum í dag þar sem fólk fær greitt sérstaklega með börnum sínum ef það er á bótum í hinu félagslega kerfi letur til atvinnuþátttöku og mismunar fólki. Það er grundvallaratriði að lágtekjufólk sem er í fullri vinnu fái sambærilegan stuðning við framfærslu barna sinna og fólk sem er lágtekjufólk annarra hluta vegna, svo sem örorku vegna. Ég tel mjög mikilvægt að kerfið tryggi að fólk hafi hvata til sjálfsbjargar og festist ekki í fátæktargildru.

Ég vek athygli á því að í tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í fyrra var ekki lagst gegn þrepaskattinum heldur þvert á móti komið með tillögu um betri útfærslu á honum þar sem betur væri stutt að þessu leyti við eðlilega tekjuöflun (Forseti hringir.) en samt sem áður gætt (Forseti hringir.) félagslegra grundvallarsjónarmiða.