140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um þessa tillögu Framsóknarflokksins og þakka fyrir það innlegg sem hér er fært fram í umræðu um efnahagsmál. Mig langar að staldra við nokkur atriði og spyrja nánar um eða velta upp í því sambandi, en mikilvægast er þó að þessi þingsályktunartillaga gangi til nefndar svo hún fái betri umfjöllun en okkur er fær hér í dag.

Framsóknarflokkurinn leggur fram tillögur um gjaldmiðlamál og peningastefnu þess efnis að gjaldeyrishöft verði afnumin eins hratt og mögulegt er þannig að markaðsskráning íslensku krónunnar verði innleidd um mitt ár 2012. Undir það get ég tekið. Það væri ákjósanlegt ef hægt væri en vandamálið hefur verið að menn óttast skammtímalækkun krónunnar verði höftunum aflétt of snemma. Framsóknarmenn leggja á það áherslu að mikilvægt sé að koma í veg fyrir þessa skammtímalækkun án þess þó að greina frá því í þessum tillögum með hvaða hætti það yrði gert. Við getum skoðað nánar í nefndinni hvernig hægt er að tryggja að krónan lækki ekki hratt í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta, enda leiðir slíkt til hækkunar verðtryggðra lána heimilanna.

Þá er í punktum 3 og 4 talað um framtíðarkosti í gjaldmiðlamálum og úttekt á peningastefnu. Hv. þingmenn í efnahags- og skattanefnd þingsins frá fyrra þingi vita að stefnt er að því að sú vinna fari í gang og þess vegna get ég ekki annað en tekið undir þær áherslur sem Framsóknarflokkurinn kemur með í þeim efnum.

Framsóknarmenn leggja til atvinnuátak og að ráðist verði í framkvæmdir. Gaman væri að kannað yrði hvernig Framsóknarflokkurinn hyggist fjármagna þær framkvæmdir því að ekki getur maður annað en tekið undir þau stefnumið sem hér eru sett fram um sérstakt átak í opinberum framkvæmdum, vinnuaflsfrekum verkefnum og framkvæmdum sem opinberir aðilar hafa forustu um. Þessu er ég sammála, en finnst skorta á að útlistað sé nánar hvernig þetta verður fjármagnað svo ég ítreki þá skoðun mína.

Sömuleiðis segir Framsóknarflokkurinn að mikilvægt sé að innleiða skattstefnu sem ýti undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu. Það væri sömuleiðis athyglisvert að heyra skýrar í framsögumönnum Framsóknarflokksins þá síðar í dag hvernig breyta eigi skattstefnunni svo þessi markmið náist. Mér dettur helst í hug að hægt sé að lækka tryggingagjald og hefur ríkisstjórnin ákveðið að ganga fram með slíkt, en ekki er útlistað í þingsályktunartillögunni hvernig Framsóknarflokkurinn telur skynsamlegt að breyta skattstefnunni svo þetta markmið náist. Heilt yfir eru hér lagðar fram þó nokkuð margar tillögur án þess þó að menn skýri út hvernig þær verði fjármagnaðar.

Vissulega rakti framsögumaður þessarar ályktunar nálgun sína og taldi að með því að ýta undir veltu í þjóðfélaginu væri hægt að ná inn tekjum til ríkisins, þá væntanlega gegnum veltuskattana, og þannig ætti að fjármagna þessar umsvifamiklu skattbreytingar. Mér finnst eins og kom fram áðan sem menn væru að leika sér eilítið með fjöreggið vegna þess að ég er sammála Framsóknarflokknum í nálgun á ríkisfjármálum. Framsóknarflokkurinn segir í þessari tillögu að tryggja beri sjálfbærni í rekstri ríkisins, að halli í opinberum rekstri sé varasamur og oft beinlínis hættulegur og að frumvarpi með útgjöldum skuli ávallt fylgja frumvarp með tekjuöflun á móti. Hins vegar skortir algjörlega á að samhliða tillögu til þingsályktunar, þar sem rakið er ítarlega hvernig hægt er að breyta skattstefnunni til að liðka fyrir framkvæmdum, sé skýrt út hvernig fjármagna eigi þær skattbreytingar.

Þá get ég verið sammála þeim áherslum sem hér koma fram um langtímaáætlanir í ríkisfjármálum og mikilvægi sjálfbærni án þess þó að hér sé það skýrt með einhverjum hætti. Eins og ég hef rakið í andsvarinu eru hér lagðar til ýmsar skattkerfis- og skattstefnubreytingar, t.d. að persónuafsláttur verði hækkaður til fyrra horfs að raungildi. Í fjárlagafrumvarpinu nú er lagt til að persónuafsláttur fylgi verðbólguþróun næsta árs og ágæt þumalfingursregla í því viðmiði er að hvert prósentustig sem verðtryggingin hækkar um kosti ríkissjóð milljarð. Þá er auðvelt að reikna út að væntanlegar breytingar á fjárlagafrumvarpi næsta árs sem lagt er fram á þessu ári muni kosta ríkissjóð um 5 milljarða kr. Þá fer maður að velta fyrir sér hvað það kosti ríkissjóð að færa persónuafslátt aftur til fyrra horfs. Það eru umtalsverðir fjármunir og aftur skortir tillögur um hvernig eigi að fjármagna slíka breytingu.

Virðulegi forseti. Heilt yfir þakka ég Framsóknarflokknum fyrir þær hugmyndir sem hér koma fram. Maður getur tekið undir stefnuna, þau markmið sem hér er lýst og hlakka ég til að vinna að þeim og skoða nánar á vettvangi nefndarinnar. Ég óska Framsóknarflokknum þar með til hamingju með það innlegg sem hér kemur fram.