140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að áhyggjur hv. þingmanns af áhættunni, sem er honum svo hugleikin, séu mjög ofmetnar. Hver er ástæðan fyrir því? Jú, það fyrirkomulag sem nú er í gildi hjá ríkisstjórninni virkar ekki. Þar af leiðandi er ekki áhætta að hverfa frá leið sem virkar ekki. Það er ekki áhætta að fara úr sökkvandi skipi í björgunarbátinn. Menn bíða ekki bara á meðan skipið sekkur af ótta við að hugsanlega sé björgunarbáturinn lekur líka. Og menn hafa ekki ástæðu til að ætla að þessi björgunarbátur sé lekur, einfaldlega í ljósi reynslunnar, í ljósi áratugareynslu fjölmargra þjóða, þar sem við getum mátað þær aðstæður sem við erum í núna, íslenskt efnahagslíf, inn í það sem aðrar þjóðir hafa gengið í gegnum og ólíka stefnu sem hefur verið notuð til að vinna sig út úr þeim vanda og séð að aftur og aftur hefur skattahækkanastefna við aðstæður eins og eru ríkjandi hér haft öfug áhrif, dregið úr tekjum ríkisins og aukið á vandann. Við skulum hafa í huga að vandinn er alltaf að aukast, ríkið er enn þá rekið með halla þrátt fyrir allt. Hins vegar hefur einföldun skattkerfisins og í sumum tilvikum, eins og ég nefndi áðan, lækkun skatta aukið tekjurnar og komið efnahagslífinu af stað. Þetta er ekki bara spurning um aukna neyslu. Tökum sem dæmi tryggingagjaldið sem við hljótum að vera sammála um að hafi þau áhrif að draga úr mannaráðningum, það sé letjandi í því efni. Sé þetta gjald lækkað með þeim afleiðingum að fleira fólk er ráðið í vinnu hefur það þau áhrif í tilviki hvers og eins að viðkomandi þarf ekki lengur að fá bætur frá ríkinu, sérstakar atvinnuleysisbætur, heldur fer að leggja ríkinu til skattgreiðslur. Þetta hefur með öðrum orðum (Forseti hringir.) tvöföld áhrif.