140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um hamingjuóskir til handa þingflokki Framsóknarflokksins fyrir þær efnahagstillögur sem hér hafa verið lagðar fram. Það er ekki sjálfgefið að stjórnarandstöðuflokkar á þingi leggi fram mótaðar efnahagstillögur. Það vill allt of oft bregða við að menn einbeiti sér að því að benda á það sem miður hefur farið að þeirra mati en hætta sér síður í að setja fram mótaðar hugmyndir um hvernig skuli á halda við stjórn efnahagsmála. Því fagna ég þessu og vil um leið segja, án þess að kalla yfir mig hættuna af því að mér verði boðið inn í Framsóknarflokkinn, að ég get lýst því yfir að um langflest sem þar kemur fram get ég verið sammála. Þær tillögur sem þarna koma fram eru að mínu mati skynsamlegar og til þess fallnar að koma fram með lausnir á þeim vandamálum sem við er að etja.

Hvaða vandamál eru það, frú forseti? Auðvitað fyrst og síðast þau að fjárfestingar á Íslandi eru sem hlutfall af þjóðarframleiðslu einar þær lægstu sem þekkjast á Evrópska efnahagssvæðinu, 13% af þjóðarframleiðslu. Þetta eru mjög alvarleg tíðindi og ég þreytist ekki á að benda á þessa staðreynd vegna þess að þetta er vísbending um það hvernig okkur muni ganga á næstu árum við að vinna okkur úr þessum efnahagsörðugleikum.

Fjárfesting á Íslandi hefur verið vel yfir 20% á ári þegar litið er til lengri tíma. Þegar gerðir voru kjarasamningar í landinu, þegar lagt var upp með nokkrar bætur til launafólks, launahækkun, voru ákveðnar forsendur lagðar þar til grundvallar, ákveðin vilyrði og loforð ríkisstjórnarinnar um að gera allt sem í hennar valdi stæði til að vinna með aðilum atvinnulífsins að því að koma fjárfestingarhlutfallinu úr 13% af þjóðarframleiðslu upp í 19–20% á samningstímanum. Ég tel að þær tillögur sem hér hafa verið lagðar fram séu skref í rétta átt til að svara því ákalli og standa við það loforð sem þar var gefið.

Eins er mikið vandamál í hagkerfinu sá pólitíski óstöðugleiki og óvissa sem uppi er. Erlendar rannsóknir og kannanir benda til þess að Íslendingar séu lágt skrifaðir hvað þetta varðar og jafnvel flokkaðir með ríkjum á við Líbíu og Egyptaland, Rússland og önnur ríki, með landlægan pólitískan óstöðugleika og nú flokkuð af fjárfestum á því rólinu hvað varðar pólitískan stöðugleika. Vil ég benda á að enn er uppi yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra um að hægt væri að grípa til þjóðnýtingar til að breyta eignarhaldi á einu af orkufyrirtækjunum. Það er alvarlegt mál að slík fullyrðing standi enn óbjöguð.

Að einstökum liðum þessarar tillögu. Fyrsti þátturinn snýr að skuldastöðu heimilanna. Ég er mjög sammála Framsóknarflokknum í því að auðvitað verður að flýta því að koma einhverri niðurstöðu í það mál og nýta það svigrúm sem bankarnir sannarlega virðast hafa til að lækka skuldir heimilanna. Það er alveg sama hvernig við snúum þessu, það varð forsendubrestur, það varð hrun og fjöldi heimila er enn í þeirri stöðu að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Framan í það verða menn að horfa. Það verður að finna lausn á því máli, vegna þess að heimili sem geta ekki staðið við skuldbindingar sínar munu ekki taka þátt í neyslunni, munu ekki taka þátt í samfélaginu, fyrir utan auðvitað bara þær hörmulegu persónulegu afleiðingar sem slíkt hefur í för með sér hvað það varðar hvernig lífi menn lifa.

Það er líka nauðsynlegt að hafa í huga bæði skuldastöðuna en auðvitað ekki síður tekjurnar og það tengist öðrum tillögum sem hér hafa verið til umræðu um stöðu heimilanna. Það sem skiptir máli gagnvart þeim sem kannski geta enn þá staðið í skilum er að auka tekjurnar þannig að tekjurnar vaxi hraðar en verðbólgan og menn eigi þá auðveldara með að standa skil á skuldum sínum. Þetta verða menn að horfa á í samhengi.

Ég ætla þá að rekja mig eftir þeirri röð sem tillögurnar eru lagðar fram í. Í öðru lagi eru lagðar til aðgerðir um stjórn peningamála og stöðu Seðlabankans. Ég er mjög sammála þeirri hugmynd sem hér er lögð fram um nauðsyn þess að leggjast í djúpa og gagngera endurskoðun á forsendum peningamálastefnunnar. Það skiptir miklu máli fyrir heimilin í landinu og auðvitað líka allt atvinnulíf. Það er óþarfi að fjölyrða um það, þar af skiptir kannski einna mestu máli til skemmri tíma litið hvernig við ætlum að lyfta gjaldeyrishöftunum, en um leið síðan hvaða fyrirkomulag tekur við þegar þeim hefur verið lyft.

Í þriðja lagi snúa tillögurnar að atvinnufjárfestingum og atvinnulífinu. Ég legg áherslu á að það er mín skoðun að menn megi ekki þrátt fyrir það atvinnuleysi sem við stöndum frammi fyrir missa sjónar á því að það sem mestu skiptir er verðmætasköpunin, þ.e. aukin framleiðni í atvinnulífinu, að við búum til meiri verðmæti og getum þar með boðið íslenskri þjóð upp á aukinn kaupmátt. Tilgangurinn er þess vegna ekki fjöldi starfanna heldur fjöldi vel borgaðra hagkvæmra starfa. Það er það sem skiptir máli. Þessi tvö sjónarmið, að það verði til störf og að það séu góð störf sem skili góðri afkomu, verða að fara saman.

Ég er mjög sammála þeirri nálgun Framsóknarflokksins sem varðar einmitt fjárfestingar hins opinbera og það að liðka fyrir einkaframtakinu eftir því sem best má verða.

Síðan eru það tillögur um stöðu ríkissjóðs. Ég er einnig mjög sammála þeim. Nú fer ég að hljóma eins og ég sé að kalla eftir inntökubeiðni í þennan ágæta flokk en ég held að það sé eðlilegt að það sé góður samhljómur á milli þessara tveggja flokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, í þessum málum. Ég er mjög sammála þeirri áherslu sem Framsóknarflokkurinn leggur á stöðu ríkisfjármála. Ég held reyndar að það sé skilningur á því hjá öllum flokkum að það skipti höfuðmáli fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar að við náum góðu jafnvægi í ríkisfjármálunum. Það er nóg að horfa til hörmulegrar reynslu Grikkja og annarra þjóða sem þó, eftir að hafa tekið upp evruna, hafa kafsiglt efnahagsmálum sínum og sérstaklega ríkisfjármálum. Auðvitað er það lexía að það skiptir ekki máli hvaða mynt menn hafa, ef menn halda illa á spilunum fer illa.

Hvað varðar skattamálin sem er síðasti þáttur þessara tillagna er ég líka sammála því að það er nauðsynlegt að einfalda skattkerfið frá því sem nú er. Ég tel að ríkisstjórnin hafi gert mistök í því að flækja skattkerfið óþarflega. Það hefur verið horfið frá þeirri stefnumótun að skattkerfið ætti að vera sem einfaldast. Ég tel að menn eigi síðan að bregðast við. Þar sem þeir vilja ná fram auknu félagslegu réttlæti er betra að gera það ekki í gegnum skattkerfið sjálft heldur í gegnum beinar greiðslur til þeirra sem við viljum aðstoða eða teljum að þurfi á aðstoð að halda. Ég tel að við eigum að hafa skattkerfið eins einfalt og mögulegt er. Þannig skilar það mestum tekjum og gefur um leið ríkinu svigrúm til að mæta slíkum skuldbindingum sem ég var að lýsa.

Ég hjó eftir í umræðu áðan, m.a. hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram í þeirri umræðu sem var hér aðeins fyrr, þeirri spurningu hvort það væri skynsamlegt að ráðast í skattalækkanir við þessar aðstæður. Ég held að það sé rétt að minna á, og ég hef gert það áður úr þessum ræðustól, að nýverið var birt rannsókn sem unnin var við Harvard-háskólann þar sem skoðuð voru viðbrögð ríkja sem lentu í efnahagskreppu innan vébanda OECD. Það var farið aftur til ársins 1971 og viðbrögðum var skipt í tvo flokka; annars vegar voru þau ríki sem brugðust við efnahagsörðugleikunum með því að auka ríkisútgjöldin, hins vegar þau sem lækkuðu skatta til að örva atvinnulífið. Þetta var alþjóðleg rannsókn, unnin af mjög vandvirkum og góðum hagfræðingum, og niðurstaðan varð sú að þau ríki sem fóru skattalækkunarleiðina voru fljótari að ná sér, fljótari að rísa upp og það sem meira var, efnahagsbatinn varð varanlegri. Í þeirri umræðu hvort það sé skynsamlegt núna að örva atvinnulífið með skattalækkunum tel ég alveg gefið mál að það er sú leið sem við eigum að feta. Fyrir utan það benti hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson okkur á að skattar innan OECD eru hæstir hér á Íslandi þegar saman eru teknar þær lífeyrissjóðsgreiðslur sem við innum af hendi og bornar saman við skattkerfi annarra landa í Evrópu. Það er rétt að hafa þetta í huga. Þetta hefur allt áhrif.

Fjárfestingar á Íslandi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu eru 13%. Samkvæmt spá Seðlabanka Íslands er hagvöxtur á næsta ári 1,6%. Fram undan eru greinilega erfiðir tímar hvað þetta varðar og það er þörf á tillögum, bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu. Því ítreka ég þakkir mínar til þingflokks Framsóknarflokksins vegna framlagningar þessara tillagna og vona að þær eigi eftir að gagnast okkur hið besta.