140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka sérstaklega fyrir þá málefnalegu umræðu og að langmestu leyti jákvæðu umræðu sem farið hefur fram hér í dag um tillögur okkar framsóknarmanna til úrbóta í efnahagsmálum. Þessar umræður sýna að menn geta vel náð saman, fulltrúar ólíkra flokka, um skynsamlegar leiðir séu þeir tilbúnir til þess að rökræða hlutina út frá staðreyndum.

Í fyrri ræðu minni fór ég yfir fjögur af þeim fimm meginatriðum sem hér eru lögð til grundvallar en átti eftir að segja nokkur orð um IV. kaflann, um tillögur í ríkisfjármálum. Þar er sérstök áhersla lögð á langtímaáætlanir og heildaráætlanir í fjárlagagerð. Hvers vegna þessi mikla áhersla á langtímaáætlanir og heildaráætlanir? Ástæðan er sú að ef menn skoða ekki langtímaáhrif þeirra ákvarðana sem teknar eru í fjármálum ríkisins taka þeir ekki réttar ákvarðanir.

Raunin hefur verið sú í gegnum tíðina að menn eru fyrst og fremst að skoða áhrif af sparnaði eða útgjöldum eða tekjum ríkisins til mjög skamms tíma, til eins árs, en það gefur oft og tíðum ranga mynd. Við höfum mjög nýleg dæmi sem eru hugmyndir um mikinn niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þar reiknuðu menn með því að það væri hægt að skera niður í framlögum til heilbrigðisþjónustu vítt og breitt um landið án þess að gera ráð fyrir nokkrum kostnaði á móti eða því að áhrifin til lengri tíma litið gætu jafnvel verið þau að auka útgjöld ríkisins.

Á nokkrum stöðum, til að mynda á Ísafirði, reiknuðu menn hins vegar dæmið til enda, fengu sérfræðinga til að fara yfir heildaráhrifin af tillögunum. Það kom auðvitað á daginn að sparnaðartillögurnar voru til þess fallnar jafnvel að auka útgjöld ríkisins til lengri tíma litið vegna þess að kostnaðinum sem kom á móti hafði algjörlega verið sleppt í fjárlagagerðinni. Það var t.d. ekki reiknað með því að sjúklingur sem ekki gat legið á sjúkrahúsi á Húsavík þyrfti að fara suður mundi leiða til kostnaðarauka fyrir sunnan eða það að flutningarnir mundu kosta eitthvað og þar fram eftir götunum. Menn voru ekki að skoða heildarmyndina, hvorki í tíma né hvað varðar heildaráhrifin.

Annað sem menn hafa ekki gert að neinu ráði er að gera greinarmun á útgjöldum sem falla til innan lands og skila sér að miklu leyti aftur til ríkisins, til að mynda í formi skattgreiðslna, og svo fjármagns sem rennur út úr landinu. Þetta var mjög áþreifanlegt, þessi skortur á slíkum samanburði, í umræðum um Icesave-málið á sínum tíma þar sem menn reiknuðu þann kostnað sem þeir áætluðu að hlytist af því, sem voru peningar, gjaldeyrir sem hefði runnið út úr landinu og ekkert komið á móti, og lögðu hann að jöfnu við önnur útgjöld ríkisins, til að mynda launagreiðslur en í því tilviki kæmi að sjálfsögðu stór hluti strax aftur til ríkisins í formi tekjuskatts og annað veltist áfram í hagkerfinu.

Það má kalla þetta heimilisbókhald, að það þurfi í auknum mæli að taka upp heimilisbókhald í áætlanagerð ríkisins og líta á landið, samfélagið allt, sem eitt heimili og skoða hvaða tekjur koma inn á heimilið og hvaða útgjöld fara út. Einungis þannig er hægt að reikna hin raunverulegu áhrif af ákvörðunum um útgjöld og tekjur.

Við leggjum til að reglur verði hertar hvað varðar heimildir til þess að skuldsetja ríkið. Þar er átt við að settar verði reglur um það að óheimilt sé að reka ríki og sveitarfélög með halla nema í sérstökum undantekningartilvikum, þetta sé sem sagt langtímamarkmið. Slíkar reglur geta að sjálfsögðu ekki tekið gildi strax, sum sveitarfélög eru í þeirri stöðu til að mynda að það er ómögulegt fyrir þau að skila afgangi á næsta eða þarnæsta ári. En auðvitað er eina vitið til lengri tíma litið að ríkið og sveitarfélög eyði ekki á hverju ári meiru en þau fá í tekjur. Það geta komið upp undantekningartilvik, ég nefndi hér áðan dæmi um það að ef olíu- eða gasauðlindir fyndust í íslenskri efnahagslögsögu og menn vildu fara þá leið sem hugmyndir hafa verið um að stofna sérstakt íslenskt olíufélag, eins konar íslenskt Statoil, þá gæti verið dýrt að koma slíku á en menn gera það þá eingöngu vegna þess að þeir telja sig hafa ágæta vissu fyrir því að tekjurnar verði þeim mun meiri til lengri tíma litið. Almenna reglan ætti að vera sú að reka ríki og sveitarfélög ekki með halla.

Hér segir einnig:

„Ríkiskerfið verði endurskipulagt með það að markmiði að lækka raunkostnað í rekstri. Í þeim aðgerðum verði forgangsraðað þannig að staðinn sé vörður um mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi.“

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gerði athugasemd við þessa grein áðan og benti á að þetta væru þeir málaflokkar sem bróðurpartur ríkisútgjalda rynni til og það væri ekki hægt að spara í rekstri ríkisins án þess að standa vörð um þessi kerfi. Í tilefni þessarar ábendingar hæstv. ráðherra er rétt að taka fram að hér er átt við að standa vörð um kerfið þannig að þjónusta sé ásættanleg en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að spara. Við höfum séð dæmi um það. Jafnvel hefur núverandi ríkisstjórn bent á að það sé hægt að veita sömu þjónustu, jafnvel meiri þjónustu í sumum tilvikum með minni kostnaði. Slíkar leiðir verða að ráða för og þá komum við aftur að því sem ég nefndi í byrjun, mikilvægi þess að meta heildaráhrifin. Dæmið sem ég nefndi áðan á meira að segja vel við í þessu sambandi, ég nefndi dæmið um hugmyndir um niðurskurð á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, sem reyndar er enn upp á teningnum í nýjasta fjárlagafrumvarpi, en þar höfum við akkúrat gott dæmi um þetta. Þar er jafnvel verið að leggja fram tillögur um niðurskurð sem veldur ríkinu enn meiri kostnaði til lengri tíma litið. Á öllum sviðum þarf að leggja til grundvallar að í ríkisfjármálum sé leitast við að skoða heildaráhrifin og langtímaáhrifin.

Ég ætla að láta þetta nægja af þessari yfirferð. Ég ítreka þakkir fyrir umræðuna sem fram hefur farið og vonast til þess að vinna í nefnd verði í samræmi við þau fyrirheit sem þessi umræða hefur gefið og þetta geti orðið grundvöllur nýrrar og betri stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar.