140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

fæðuöryggismál.

[15:09]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um fæðuöryggismál og í gær var alþjóðadagur matvæla hjá Alþjóðamatvælastofnuninni. Fyrr í dag var Ástralinn Julian Cribb með áhugaverðan fyrirlestur í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar þar sem hann fjallaði um fæðuöryggismál og vakti mjög marga til umhugsunar um að fæðuöryggismál eru stórmál á alþjóðavettvangi. Á Íslandi hefur oft verið litið þó nokkuð niður á þetta orð, fæðuöryggi, og talið að það væri einungis notað af forsvarsmönnum bænda í baráttu sinni.

Það er hins vegar ljóst að umræða um matvæli og hækkun matvælaverðs er mjög mikil í heiminum og FAO spáir mikilli hækkun á matvælaverði. Við heyrðum einnig í morgun að það fjölgar um 240 þús. manns á hverjum degi þannig að það eru 240 þús. fleiri í mat hjá okkur í dag en voru í gær.

Hæstv. forsætisráðherra fer fyrir þessari ríkisstjórn og á vegum forsætisráðherra var unnin á sínum tíma Sóknaráætlun 20/20 þar sem kemur fram í 14. lið að hlutfall innlendrar matvöru í neyslu landsmanna skuli aukast um 10% fyrir árið 2020. Svo segir í samstarfsyfirlýsingu flokkanna sem stýra þessu landi í kaflanum „Sóknarstefna til framtíðar“:

„Ríkisstjórnin mun standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar og standa vörð um störf í matvælaiðnaði. Íslenskur landbúnaður verði efldur með áherslu á fullvinnslu afurða og markaðssókn innan lands sem utan.“

Ég spyr forsætisráðherra einfaldlega: Hvað er að frétta af þessum málum? Hvað finnst ríkisstjórninni um fæðuöryggismál og tekur hún slíkt ekki alvarlega?

Mig langar til að forvitnast um það (Forseti hringir.) með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að auka hlutfall innlendrar matvöru um 10%.