140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

auglýsing Háskóla Íslands um stöðu prófessors.

[15:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta 17. júní sl. ályktaði Alþingi að stofnuð yrði prófessorsstaða tengd nafni hans. Það kom fram í ályktunartextanum að prófessorsstaðan skyldi vera við Háskóla Íslands en starfsskyldur þess sem henni gegnir verði meðal annars við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.

Þetta er síðan nánar útskýrt í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni og þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Vel þykir fara á því að starfsstöð prófessorsins verði á heimaslóðum Jóns Sigurðssonar því höfuðviðfangsefni prófessorsins verður rannsóknir og kennsla á þeim sviðum sem tengjast lífi og starfi Jóns. Æskilegt er að prófessorinn hafi búsetu nálægt starfsstöð sinni; sú er reynslan af þátttöku vísindamanna í starfi háskólasetranna, en aðstæður vísindamanna og mat hæfnisnefndar verður þó að ráða niðurstöðu um það atriði hverju sinni.“

Hæstv. forsætisráðherra kom svo vestur á Hrafnseyri 17. júní sl., áréttaði þessi sjónarmið og sagði þá, með leyfi virðulegs forseta:

„Sá sem gegna mun stöðunni skal hafa fasta búsetu á Ísafirði eða nágrenni og hafa um kennslu og rannsóknir starfsskyldur og samstarf við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og Háskólasetur Vestfjarða.“

Það gerðist hins vegar 15. september sl. að Háskóli Íslands auglýsti stöðu prófessorsins til umsóknar og þar segir, með leyfi virðulegs forseta enn á ný:

„Gert er ráð fyrir starfsstöð á tveimur stöðum, þ.e. að Hrafnseyri við Arnarfjörð og við Háskóla Íslands.“

Þessi ályktun er algjörlega í ósamræmi við vilja Alþingis og þau loforð sem hæstv. forsætisráðherra gaf á Hrafnseyri. Þá spyr ég: Hvernig hyggst hæstv. forsætisráðherra bregðast við? Ég tel eðlilegast að hæstv. forsætisráðherra krefjist þess af Háskóla Íslands að auglýsingin verði dregin til baka. Til þessa embættis var stofnað með sérstökum hætti af hátíðlegu tilefni sem við öll þekkjum. Það er verið að koma í bakið á okkur öllum og ómerkja fyrirheit hæstv. forsætisráðherra sem voru gefin á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar (Forseti hringir.) á sjálfu 200 ára fæðingarafmæli hans.