140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

áhersla ríkisstjórnarinnar á jafnréttismál.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að telja allt sem ríkisstjórnin hefur gert og er að vinna að í jafnréttismálum með því að fletta málaskrá ríkisstjórnarinnar. Það sem skiptir máli er hver framkvæmdin er á hlutunum og það var það sem ég var að koma að áðan, þ.e. hvað það er sem við erum að vinna í sérstakri ráðherranefnd um jafnréttismál. Það er í fyrsta skipti sem slík ráðherranefnd hefur verið sett á laggirnar og það er af því að við viljum gefa þessu aukið vægi. Þar förum við alveg yfir sviðið í öllum þeim málum sem hv. þingmaður nefndi, ekki síst er okkur ofarlega í huga núna launamismunurinn sem viljum taka á.

Fækkun á kvennastörfum er auðvitað áhyggjuefni. Ég kann ekki alveg að nefna þessa tölu sem hv. þingmaður nefndi en ég hef heyrt lægri tölu en þetta. Þetta er áhyggjuefni en að því erum við auðvitað að vinna, (Forseti hringir.) að bæta atvinnuástandið og ekki síst er varðar kvennastörfin. Með ýmsum hætti erum við (Forseti hringir.) að vinna að því.