140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

manngerðir jarðskjálftar á Hellisheiði.

[15:29]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að eiga hér orðastað við innanríkisráðherra sem einnig er ráðherra sveitarstjórnarmála. Við höfum haft fréttir af því og sum fundið á eigin skinni að jörð á Hellisheiði skelfur. Þetta er vegna svokallaðrar niðurdælingar á vegum Orkuveitu Reykjavíkur, þetta eru sem sagt manngerðir jarðskjálftar. Nú langar mig að spyrja ráðherra sveitarstjórnarmála hver sé í raun réttarstaða íbúa á þessu skjálftasvæði, í Hveragerði og þar í kring, og hvort hann sjái einhverja lausn á málinu. Hvar liggur ábyrgðin á þessu og hver er ábyrgur ef þarna verður tjón af völdum manngerðra jarðskjálfta? Er þetta ástand undir einhverjum kringumstæðum boðlegt? Hversu langt er hægt að ganga í virkjanaframkvæmdum?