140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn.

47. mál
[15:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Ég þakka, forseti, fyrir þessar upplýsingar, einkum fyrir fyrsta liðinn. Það er kominn tími til að taka til í stjórnskipan þessa fyrirtækis í hinum almenna skilningi orðsins. Ég held að heillavænlegast sé að félag ríkis og borgar taki að sér þennan rekstur. Hvernig hann svo fer er annað mál sem við eigum eftir að horfa betur á og virða fyrir okkur. Þó að við vonum að allt fari vel reyndist kappið meira en forsjáin við byggingu þessa húss og þær áætlanir sem þar voru gerðar.

Um síðari hluta svarsins kemur ekki annað fram en það sem áður er fram komið. Það er rétt að kveða ekki upp neinn dóm um það. Séu lagðar saman hinar einföldu tölur í þessu fá menn út um 28 milljarða, það er tala sem margir hafa dregið í efa og viljað hafa hærri. Ef til vill þarf hreinlega að gefa Alþingi og almenningi betri skýrslu en hægt er í svari við fyrirspurn. Það er ljóst að þetta hefur auðvitað kostað mikið fé. Ég sé ekki eftir peningum í menningarverkefni og sýti það ekki þó að þau nýtist líka ferðaþjónustunni en held að þetta dæmi hér verði að vera okkur víti til varnaðar í framtíðinni og að við verðum að undirbúa frekari sókn á þessu sviði og svipuðum með öðrum hætti en hingað til.