140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

námsárangur drengja í skólum.

56. mál
[15:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Fyrir skömmu birtust niðurstöður starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar sem var sérstaklega falið það hlutverk að fara yfir námsárangur drengja í skólum borgarinnar. Ég fullyrði hér og nú að allt landið á að líta til þessara kannana og niðurstaðna, hvort sem það er mitt eigið kjördæmi, þéttbýliskjarninn í kringum Reykjavík, eða önnur svæði landsins. Þar kemur fram eins og kom meðal annars fram í umræðunni að stór hópur drengja, fjórði hver 15 ára drengur, getur ekki lesið sér til gagns. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ráðuneyti menntamála hafi farið yfir þessa skýrslu og ætli sér að nýta sér hana til þess að reyna að greina fyrr og skima hvernig hægt er að koma til móts við það erfiða viðfangsefni að auka lesskilning ungra drengja. Það er alveg ljóst miðað við þær rannsóknir sem liggja fyrir og voru gerðar í 2. bekk grunnskóla að eitthvað er að. Menn sjá að það er ekki tekið á þessu alveg fram í 15 ára bekk.

Því spyr ég ráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að það verði farið í skimanir á lestrarkunnáttu bæði drengja og stúlkna strax frá upphafi og því fylgt eftir þannig að það verði hugsanlega skimað strax í 2. bekk og menn sjái það þá í 4. bekk hvort einhver árangur hafi orðið strax á þeim tveimur árum sem fyrstu kannanirnar gefi til kynna.

Ég held að það sé mikilvægt að við horfumst í augu við það að þetta er vandamál sem við þurfum að takast á við. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við það að komin sé ný tækni o.fl. Jú, það eru vissulega ákveðin samfélagsleg vandamál sem við þurfum að eiga við. Ég er hins vegar ekki á því endilega að rafbækurnar, eins og við þekkjum ágætlega, leysi allan vanda. Ég held að þær komi til móts við stóran hóp fólks. Það er alveg ljóst að þau börn sem lesa sér ekki til gagns með bóklestri á pappír munu ekki heldur gera það með rafbókum. Við þurfum að höfða til krakkanna þannig að þau fái áhuga á að lesa sér eitthvað til gagns.

Það er alveg rétt sem komið hefur fram að stundum finnst manni bókmenntir strákanna, tala ég af eigin reynslu, ekkert ofboðslega merkilegar en við eigum að vera þakklát fyrir allt sem er lesið, hvort sem það eru íþróttir í blöðum eða teiknimyndasögur. Allt sem lesið er nýtist, ekki síst drengjum.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur verið farið gaumgæfilega yfir þessa skýrslu til að koma til móts við það erfiða viðfangsefni sem er slakur lesskilningur fjórðungs hóps 15 ára drengja?

Síðan er hitt fyrir forvitnissakir: Er hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sammála bókun fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að ekki sé sérstök nauðsyn á að kanna námsárangur drengja í skólum?