140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

staðfesting aðalskipulags.

45. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Staða mála varðandi staðfestingu aðalskipulags sveitarfélaganna Blönduóssbæjar, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Húnavatnshrepps er í mikilli óvissu. Þannig er mál með vexti að vinna við gerð nýs aðalskipulags fyrir þessi sveitarfélög hefur staðið yfir alllengi. Í Skagafirði hófst til dæmis þessi vinna fyrir heilum áratug, þ.e. árið 2001, síðar í öðrum þeim sveitarfélögum sem ég hef gert að umtalsefni. Þeirri vinnu lauk hvað sveitarfélögin áhrærði í upphafi þessa árs og var skipulagstillagan eðlilega send áfram inn á borð umhverfisráðuneytisins. Verður ekki séð að á þeim tillögum sem liggja fyrir frá sveitarfélögunum sé nokkur formgalli eða efnisgalli, enda kemur raunar fram í mati Skipulagsstofnunar að svo sé ekki. Það er hins vegar augljóslega efnislegur ágreiningur um legu hringvegarins á þessum tveimur stöðum, annars vegar í landi sem heyrir undir Blönduóssbæ og Húnavatnshrepp og hins vegar í landi sem heyrir undir Sveitarfélagið Skagafjörð. Þetta hafa verið langvinnar og harðar deilur og afstaða þessara sveitarfélaga og íbúa þeirra hefur legið ljós fyrir. Afstaða þeirra sveitarfélaga til þessa máls er algerlega óbreytt. Þeir vilja með öðrum orðum ekki breyta legu hringvegarins. Hins vegar hefur Vegagerðin lagt á það mikla áherslu að gert verði ráð fyrir því í nýju aðalskipulagi þessara sveitarfélaga að henni verði breytt.

Nú eru þessi mál í þessari miklu óvissu. Auðvitað blasir við öllum að meðan sjálft aðalskipulagið er í óvissu er fjöldamargt annað í óvissu í sveitarfélögunum, m.a. þættir sem lúta að uppbyggingu í atvinnulífi. Setjum okkur í spor þess fólks sem hefur í huga að setja upp atvinnustarfsemi á Blönduósi eða einhvers staðar í Skagafirði og hefur ekki undir höndum neitt staðfest aðalskipulag. Það hefur í för með sér gríðarlega óvissu sem gerir það að verkum að menn halda að sér höndum. Það er alvarlegt mál sem þarf ekki að hafa mörg orð um.

Það stefnir ekki í samkomulag deiluaðila. Hér er bara um að ræða tvær ósamrýmanlegar leiðir og það þarf einhvern veginn að ljúka þessu máli. Hæstv. umhverfisráðherra hefur þessi ráð í hendi sér og málin hafa verið á hans borði um alllanga hríð. Málin hafa því miður tafist og þá eru ráð sveitarfélaganna orðin ekki mjög mörg. Þau gætu farið í mál til ógildingar á ákvörðun hæstv. ráðherra. Ef það mál gengi vel fyrir þau gæti það leitt til kröfu um skaðabætur. Það væri hægt að vísa þessu máli til umboðsmanns Alþingis, en fleiri eru leiðirnar sennilega ekki nema hæstv. (Forseti hringir.) umhverfisráðherra taki af skarið og undirriti þá tillögu að aðalskipulagi sem liggur fyrir hjá hæstv. ráðherra.