140. löggjafarþing — 10. fundur,  17. okt. 2011.

fjármálafyrirtæki.

104. mál
[16:16]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Tilgangurinn með frumvarpinu er að lögleiða sérstakt varnarþingsákvæði sem skuli gilda um riftunarmál vegna fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hér á landi og að framlengja frest til að höfða riftunarmál vegna gerninga fjármálafyrirtækja.

Frumvarpið er lagt fram í kjölfar ábendinga sem hafa borist ráðuneytinu frá slitastjórn Landsbanka Íslands hf. vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 379/2011 sem kveðinn var upp 7. júlí sl. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að höfða riftunarmál gagnvart erlendum aðilum hérlendis, á heimilisvarnarþingi Landsbankans, án samþykkis viðkomandi aðila. Af niðurstöðunni má draga þá ályktun að veruleg þörf sé á að tryggja að varnarþing við höfðun riftunarmála vegna fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita með úrskurði íslenskra dómstóla skuli vera hér á landi.

Ljóst er að verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir bú fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hérlendis að lögleidd verði sérstök varnarþingsregla vegna riftunarmála og þannig tryggt að mögulegt verði að beita íslenskum lögum við úrlausn riftunarmála. Þá þykir brýna nauðsyn bera til að riftunarfrestur verði lengdur í 30 mánuði, en undirbúningur vegna riftunarmála við slitameðferð fjármálafyrirtækja getur verið gríðarlega umfangsmikill. Heimildir laga um riftun gerninga hafa það að markmiði að gæta jafnræðis kröfuhafa þannig að einstakir kröfuhafar séu ekki betur settir en aðrir vegna ráðstafana fjármálafyrirtækis áður en slitameðferð hófst. Í ljósi umfangs þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð má telja víst að verði frestur til að koma fram málshöfðun til riftunar á gerningum ekki lengdur séu miklar líkur á að markmið um jafnræði kröfuhafa fari forgörðum, en nauðsynlegt er að slitastjórnir fái tækifæri til að gæta hagsmuna búa bankanna með sem bestum hætti. Sem dæmi má nefna að almennur frestur fyrir slitastjórn Landsbankans til að höfða riftunarmál mun renna út í lok október, en ljóst er að birting stefnu erlendis getur tekið nokkra mánuði þar sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja reglum Haag-samningsins frá 15. nóvember 1965, um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Til að koma í veg fyrir að sú staða komi upp að frestur fjármálafyrirtækja í slitum til að höfða riftunarmál renni út án þess að tekist hafi að birta stefnu í tæka tíð er því lagt til að hann verði framlengdur um sex mánuði.

Markmið breytinganna sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að tryggja jafnræði kröfuhafa fjármálafyrirtækja í slitum með því að framlengja riftunarfrestinn og tryggja að riftanlegar ráðstafanir verði metnar eftir sömu reglum, burt séð frá því hvort um innlenda eða erlenda aðila sé að ræða. Með því að tryggja að úr ágreiningi verði leyst eftir innlendum reglum yrði samræmi við úrlausn riftunarmála tryggt, en í tilskipun 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, er gert ráð fyrir því að endurskipulagning og slit fjármálafyrirtækja skuli fara eftir lögum eins ríkis. Þá má einnig benda á að um augljóst hagræði væri að ræða fyrir slitastjórnir sem þyrftu ekki að leggja út í umtalsverðan sérfræðikostnað við málshöfðun erlendis, auk þess sem dómsúrlausnir mundu stafa frá innlendum dómurum sem búa yfir þekkingu á XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og beitingu þeirra í dómaframkvæmd. Loks yrði aðgengi að dómstólum tryggt og komið í veg fyrir hugsanlega frávísun/heimvísun málsins innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar. Það er æskilegt að hraða meðferð þess ef kostur er, enda eins og kom fram eru horfur á því að málshöfðunarfrestir renni út í lok þessa mánaðar að óbreyttu.