140. löggjafarþing — 10. fundur,  17. okt. 2011.

fjármálafyrirtæki.

104. mál
[16:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu um þetta mál, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem er að fullu réttmæt og nauðsynlegt að koma í gagnið. Ég sakna þess þó að menn eru ekki enn búnir að taka á því sem ég tel að sé einn af þáttunum sem ollu hruninu, raðeignarhaldi, krosseignarhaldi og þótt ekki væri nema lán til starfsmanna. Það er enn þá í hlutafélagalögunum, sýnist mér, og ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að laga þá lagasetningu. Ef einhverjir skyldu slysast til að kaupa hlutabréf í framtíðinni eiga þeir ekki að þurfa að sjá hlutafélögin sín holuð að innan eins og gerðist í hruninu. Ég bíð í óþreyju eftir því að ráðuneytið geri eitthvað í þessu. Reyndar er ég á móti því að löggjafarsamkundan ákalli ráðuneytið um lausnir en það er ljóst að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki sýnt frumkvæði í því að laga þennan galla í hlutafélagalögunum. Þar sem ég átti sök á því að þetta ákvæði fór hér í gegn að beiðni ESA með mínu tilstilli og hæstv. fjármálaráðherra, ég hef nú beðist afsökunar á mínum parti en hann ekki á sínum, bíð ég í ofvæni eftir að menn afnemi þetta ákvæði.