140. löggjafarþing — 10. fundur,  17. okt. 2011.

fjármálafyrirtæki.

104. mál
[16:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég má nú biðja hæstv. ráðherra forláts á að hafa komið inn á þetta mál, en hér fjöllum við um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og það voru þau sem fóru verst út úr þessu. Þau eru hlutafélög og falla þar af leiðandi undir hlutafélagalög. Í þeim lögum er ákvæði í 79. gr. sem segir að hlutafélag megi lána starfsmönnum eða tengdum aðilum til kaupa á hlutabréfum þannig að menn geta stofnað hlutafélag um sinn hlut eins og menn gerðu. Af því að það er ekkert hámark á þessu geta menn látið milljarð fara í gegn í staðinn fyrir milljón og það skiptir ekki máli. Þetta held ég að hafi búið til margar eignir sem ekki voru raunverulegar, enda hrundi eigið fé íslenskra fyrirtækja með þvílíkum ósköpum að eigið fé þeirra fyrirtækja eða hlutafélaga sem sendu inn rafrænt bókhald voru 7 þús. milljarðar í árslok 2007, sem sagt fimmföld þjóðarframleiðsla. Það voru 50 milljarðar, núllföld þjóðarframleiðsla, í árslok 2008 og það voru mínus 1.400 í árslok 2009, þ.e. hrundi úr fimmfaldri þjóðarframleiðslu niður í mínus einfalda þjóðarframleiðslu sem sýnir mér að það er eitthvað að ársreikningunum sem og ársreikningalögunum og hlutafélagalögunum.

Ég bíð í ofvæni eftir því að menn leysi þetta einhvern veginn þannig að við þurfum ekki að vænta þess, litlir hluthafar, að hlutafélögin okkar verði holuð að innan fyrir framan nefið á okkur og ársreikningarnir sýni eitthvað allt annað. Það er sem sagt galli bæði í löggjöfinni um ársreikninga og í löggjöfinni um hlutafélög.