140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Aðkoma stjórnvalda að atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík hefur verið samfelld sorgarsaga frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Reyndar er réttast að minnast á þegar fyrrverandi umhverfisráðherra Samfylkingarinnar ákvað að setja tiltekna þætti í svokallað sameiginlegt mat og tafði atvinnuuppbygginguna og verkefnið í um tvö ár. „Eitthvað annað,“ hrópa Vinstri grænir og hafa gert lengi. Engu að síður var gert hagkvæmnimat af fyrri ríkisstjórn og einnig þeirri sem nú starfar sem hefur sýnt það svart á hvítu að álversuppbygging mundi skapa langflest störf og koma í veg fyrir fólksflótta af svæðinu.

Landsvirkjun hefur held ég aldrei verið stjórnað jafnkröftuglega af stjórnvöldum og henni er stjórnað í dag. Fingraför Vinstri grænna eru úti um allt og auðvitað er það þannig að ef maður vill ekki tiltekna atvinnuuppbyggingu stillir hann dæminu þannig upp að orkan verður margfalt dýrari en áður hefur þekkst og það á að selja hana á löngum tíma sem gerir svona framkvæmd að sjálfsögðu óhagkvæma og ónýtir verkefnið.

Fyrir um ári stóð hæstv. forsætisráðherra í pontu og lofaði stórfelldri atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Hvar eru þau loforð? Þingeyingar áttu að búa sig undir stórfellda atvinnuuppbyggingu. Hæstv. iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) hefur talað í sömu átt. Ég held að ríkisstjórnin ætti frekar að líta í eigin barm, (Forseti hringir.) keyra á atvinnuuppbyggingu til að efla hagvöxt og koma í veg fyrir atvinnuleysi. (BJJ: Ekkert í gangi.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk.)