140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það verður seint sagt að það séu beinlínis hlýjar kveðjur sem Þingeyingar fá frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar í ljósi frétta gærdagsins sem voru mikil vonbrigði, þ.e. að áform um atvinnuuppbyggingu Alcoa á svæðinu væru slegin út af borðinu. Það þarf hins vegar ekki að koma á óvart í ljósi þeirrar stefnubreytingar sem varð eftir að ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar tók við stjórnartaumunum hér á landi. Það var ljóst frá degi eitt að ríkisstjórnin gerði hvað hún gat til að koma í veg fyrir að af þeirri atvinnuuppbyggingu yrði og nú liggur sú niðurstaða fyrir.

Það liggja hins vegar líka fyrir mjög stórkarlalegar yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni sem hafa skipti eftir skipti boðað stórfellda atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Nú er komið að því að hæstv. ríkisstjórn standi við stóru orðin. Og hvað skal þá gera í ljósi þess að Þingeyingar hafa eðlilega lagt mikla áherslu á þetta verkefni? Jú, við þurfum í fyrsta lagi að verja innviðina í Þingeyjarsýslum og þá er lágmarkið að ríkisstjórnin standi við þá viljayfirlýsingu sem gerð var við Þingeyinga fyrir nokkrum mánuðum um að staðinn yrði vörður um opinbera þjónustu og innviði á svæðinu. Hvað stendur svo í fjárlagafrumvarpinu? Það á að leggja af sjúkrahúsið á Húsavík. Það á að skera stórlega niður hjá opinberum stofnunum ef fram heldur sem horfir. Ég held að ríkisstjórnin ætti að minnsta kosti að taka sig saman í andlitinu og standa vörð um þá opinberu þjónustu sem þó er fyrir hendi á þessu svæði og að við höldum áfram í ljósi þess að sem betur fer er fyrir hendi orka á svæðinu. Nú verða menn að láta hendur standa fram úr ermum og vinna að atvinnuuppbyggingu á þessu svæði í stað þess að þvælast fyrir verkefnunum sem raunin hefur því miður orðið á. Það er mikilvægt að við hér, sama hvar í flokki við stöndum, stöndum með Þingeyingum að uppbyggingu (Forseti hringir.) atvinnutækifæra og stöndum vörð um opinbera þjónustu á svæðinu. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr.)