140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Tími einsleitni í atvinnumálum, tími einnar lausnar aðgerða, er vonandi að baki. Við þurfum á fjölbreyttu atvinnulífi að halda sem víðast á landinu.

Við blasir að varnarbarátta byggðanna hringinn í kringum landið hefur fyrst og fremst verið vegna þess að atvinnulífið hefur verið reist á einsleitni. Við þurfum að snúa af þeirri vegferð og horfa til fjölbreyttrar uppbyggingar í atvinnulífi. Það mun reynast byggðunum best til langrar framtíðar.

Íbúum í Norðurþingi hefur fækkað um 13% frá 1991. Á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað um 13%. Unga fólkinu, 18–40 ára, á því svæði hefur fækkað um fjórðung eða nákvæmlega 24%. Fólkið fer vegna þess að einsleitnin í atvinnulífinu hefur leikið samfélagið mjög illa. Þess vegna fagna ég þeim fjölmörgu kostum sem nú blasa við í Þingeyjarsýslum í fjölbreyttri uppbyggingu atvinnulífs, fjölbreyttri uppbyggingu margvíslegra iðnaðarkosta. Það er næg orka í iðrum jarðar en ég ætla að vona að við nýtum hana ekki alla í einum hvelli til að búa til einhvers konar loftbóluhagkerfi á þessu litla svæði heldur að við byggjum þar upp til langrar framtíðar. Ég tel að reynsla okkar Íslendinga af því að byggja upp á litlum svæðum sé einmitt þeirrar náttúru að þar eigum við að reyna að hafa efnahagslegan ávinning af uppbyggingunni sem lengstan en ekki sem stystan þannig að aðlögun samfélagsins að þeim kostum sem við blasa á hverju svæði séu sem bestir og mestir.