140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:56]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur mér þó nokkuð á óvart hversu mikil gleði virðist ríkja hjá stjórnarþingmönnum yfir því að Alcoa hefur hætt við að skapa hið stóra atvinnutækifæri á Bakka eins og til stóð. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson lýsir því yfir að þar hafi verið komist hjá því að skapa bóluhagkerfi á þessum stað. Þá gleymir þingmaðurinn kannski ævintýrinu sem er aðeins austar, í Fjarðabyggð, þar sem eru hæstu meðaltekjur á mann. (Gripið fram í.)

Það virðist vera sem þingmenn séu klárir í að skipa sig sem sérfræðinga í jarðfræði og öðru slíku og telja upp þau efni sem upp koma með gufunni og fleira. Ég hef talað við nokkuð marga jarðvísindamenn um nákvæmlega þetta mál og ég þykist alls ekki vera sérfræðingur í því, en mér skilst að (Gripið fram í.) í Gjástykki, á Þeistareykjum og Kröflusvæðinu séu samtals um 400 megavött.

Síðan er eitt sem ég hef lært með aldrinum, og ég þarf ekki að vera neinn sérfræðingur í því, það er að hægt er að leiða rafmagn um þó nokkuð langan veg, hundruð kílómetra, og í tilfelli okkar Íslendinga hefur verið lagt til að leggja rafmagn þúsund kílómetra yfir Atlantshafið, þannig að það er náttúrlega eins og hvert annað bull að segja að ekki sé til orka.

Síðan er það þetta með samkeppnishæfa verðið. Hv. þm. Magnús Orri Schram gladdist yfir því að einhverjir aðrir ætluðu að borga samkeppnishæft verð, en hverjir eru þessir aðrir? Það er ekkert í hendi. (Forseti hringir.) Landsvirkjun lýsti yfir að hún væri að semja við tíu aðila fyrir nokkrum mánuðum síðan. Nú lýsir hún yfir að hún sé að semja við fimm aðila. (Forseti hringir.) Í sumar var því lýst yfir að búið yrði að skrifa undir samninga fyrir áramót en það gerist ekki neitt. En það er gaman að sjá (Forseti hringir.) að stjórnarliðar skuli geta glaðst svona yfir því að þetta verk sé komið af dagskrá.