140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

löggilding nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.

114. mál
[14:07]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.

Í frumvarpinu er sú breyting gerð að uppfærð er vísun til EES-tilskipunar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Frumvarpið er einn liður af mörgum í því að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007/EB. Að efni til varðar tilskipunin viðurkenningu á menntun til að gegna starfi sem er lögverndað og því að menn skuli hafa aflað sér faglegrar menntunar og hæfis áður en þeim er heimilt að hefja störf á viðkomandi sviði.

Með áðurnefndri tilskipun frá árinu 2005 eru 15 fyrri tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis sameinaðar í eina, þar með talið tilskipanir 85/384/EBE og 89/48/EBE, sem vísað er til í 4. mgr. fyrrnefndra laga nr. 8/1996.

Með lagabreytingunni sem mælt er fyrir verður vísað til núgildandi EES-tilskipunar um faglega menntun og hæfi í stað hinna úreltu tilskipana sem vísað er til í lögum um löggildingu starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.

Með tilskipun nr. 2005/36/EB eru engar grundvallarbreytingar gerðar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Réttur manna til viðurkenningar er því hinn sami og áður en vonast er til að framkvæmdin verði einfaldari og skilvirkari, m.a. með nýjum ákvæðum um veitingu þjónustu og um samskiptakerfi stjórnvalda er annast viðurkenninguna.

Vegna þess dráttar sem orðið hefur á innleiðingu á áðurnefndri tilskipun er lagt til að lagabreytingin öðlist þegar gildi og er ekki talið að það valdi vandræðum í framkvæmd. Í kjölfar lagabreytingarinnar verður þó nauðsynlegt að uppfæra stjórnvaldsfyrirmæli sem birt hafa verið á grundvelli laga um löggildingu starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Þar á meðal eru þær reglur sem fagfélög setja sér um hvaða nám teljist leiða til fullnaðarprófs í viðkomandi grein.

Með þessum orðum um þetta þó einfalda mál legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. atvinnuveganefndar.