140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:42]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það mál sem hér er til umræðu er stórt, mikilvægt og um margt flókið og á sér langa sögu. Sá vandi sem uppi er í veröldinni hvað varðar samspil framleiðslu og umhverfismála á um margt rætur að rekja til iðnbyltingarinnar þegar framleiðsluhættir nútímans mótuðust. Það er tvennt sem má segja að hafi að nokkru farið úrskeiðis, annars vegar að þegar þeir framleiðsluhættir þróuðust gerðu menn sér ekki glögga grein fyrir afleiðingum mengunar og hins vegar var skilningur á því hversu takmarkaðar náttúruauðlindir væru ekki sá sami og nú ríkir. Þetta hefur þýtt að vaxið hefur sá vandi að við mengum meira og meira til að búa okkur þau lífskjör sem við svo sannarlega viljum.

Við skulum ekki gleyma því í þessari umræðu að svo stór hluti jarðarbúa býr við svo sára og mikla fátækt að það er langur vegur frá því að hægt væri að uppfylla grundvallarþarfir stórs hluta mannkyns. Sú lausn er ekki og verður ekki þannig, eins og stundum hefur verið talað um umhverfismál, að við á Vesturlöndum eigum að draga mjög úr okkar neyslu og mynda þannig svigrúm fyrir aðra. Það er engin lausn, í fyrsta lagi vegna þess að aukning neyslu annarra á sömu forsendum og hafa verið hingað til gengur ekki upp, rétt eins og hv. þm. Magnús Orri Schram benti ágætlega á í dæmi sínu af þeim ágæta pistlahöfundi Friedman sem skrifar oft mjög góða pistla í New York Times og hefur einmitt gefið út áhugaverðar bækur um þessi málefni, en líka það að ef til stendur að auka framleiðsluna verður það að gerast með öðrum hætti. Hvernig gerist það, frú forseti? Það gerist ekki með því að við reynum að setja alls konar hindranir í efnahagsstarfsemina, að við aukum hlutverk ríkisvaldsins, heldur þvert á móti nýtum markaðsskipulagið til að laða fram þekkingu, kunnáttu og hugmyndir, með öðrum orðum með réttum hvötum.

Það sem hefur verið vandamál í umræðu um umhverfismál á Íslandi allt of lengi eru átök á milli hægri og vinstri um umhverfismál. Sú hugsun að það sé hægt að leysa umhverfisvandann sem svo sannarlega er til staðar með því að við höfum bara minna hagkerfi, drögum úr neyslunni, hættum að byggja á markaðshagkerfinu, er röng. Ég fullyrði að hún er röng. Lausnin felst í því að markaðurinn vinni eftir réttum forsendum, með öðrum orðum að við leiðréttum þau mistök sem áttu sér stað í upphafi þegar iðnbyltingin fór af stað, að við tökum tillit til þess að við séum ekki að menga með framleiðslu okkar og að við höfum skilning á því að margar auðlindir eru takmarkaðar, margar hverjar reyndar líka endurnýjanlegar sem auðvitað eru bestu auðlindirnar sem við getum búið við.

Tæknibreytingar eru lykillinn að þessu öllu saman. Það er hægt að nefna fjölmörg dæmi um hvernig ný tækni hefur leyst af hólmi gamla tækni og þar með um leið alvarleg umhverfisvandamál og/eða skort. Gott dæmi er sú þróun sem nú á sér stað í bílaiðnaði heimsins. Þar eru alveg gríðarleg orka, fjármunir og tími sett í að þróa nýja bíla sem menga minna vegna þess að hugmyndin er ekki sú að gera færra fólki kleift að nýta sér það að ferðast um í bíl. Hugmyndin hlýtur að vera sú að geta ferðast um án þess að menga. Það er markmiðið, það er stefnumiðið. Stefnumiðið á ekki að vera eins og mér hefur því miður svo oft fundist koma fram í umræðu um þennan mikilvæga málaflokk að við eigum alltaf að reyna að draga úr, minnka. Hugmyndin er að hanna hlutina rétt.

Það sem mér finnst gott í því plaggi sem við erum að ræða hér er sá góði samhljómur sem náðist í starfi þeirrar nefndar sem lagði fram þá skýrslu sem þingsályktunartillagan er byggð á, sá góði samhljómur sem náðist um akkúrat þessa hugsun í umhverfismálum, samhengi og sameiginlega hagsmuni atvinnulífsins annars vegar og umhverfisins hins vegar. Hvorugt getur verið án hins hvað það varðar að við viljum búa til lífskjör fyrir fólkið í landinu, núlifandi kynslóð og þær kynslóðir sem á eftir okkur koma. Það er hin ábyrga stefna.

Mörg þeirra vandamála sem við erum að fást við, frú forseti, eru uppi vegna þess að eignarrétturinn er ekki nægilega vel skilgreindur. Eitthvert augljósasta dæmið er loftslagsvandinn, þ.e. að álver byggt í Kína sem er keyrt áfram á brúnkolum, býr til mengun sem fer út í andrúmsloftið og veldur vandræðum á hnattræna vísu af því að enginn á andrúmsloftið. Þess vegna kallar það á samstarf milli þjóða að reyna að finna regluverk til að draga úr þessu. Það er ekki einfalt mál. Þar eru mörg atriði sem þarf að horfa til og mismunandi hagsmunir.

Mörg þeirra vandamála sem við er að fást má leysa með því að skilgreina betur og skerpa eignarréttindi. Það gerist þannig að um leið og fyrir liggur hver eignarréttindin eru er líka kominn gæslumaður þeirra sem sættir sig ekki við að það sé gengið á hlut viðkomandi með mengun. Þess vegna er ríkisvaldið hættulegasti aðilinn þegar kemur að mengun. Það er ekki langt síðan birtist mjög áhugaverð rannsókn, tvö, þrjú ár síðan, þar sem búið var að taka út hvaða staðir í veröldinni eru mest mengaðir, sem hefur verið farið verst með. Í hvaða löndum skyldi það vera? Hvar skyldi það hafa verið, frú forseti, sem mengunin var svona hryllileg? Jú, einmitt þar sem markaðirnir eru lítt þróaðir, eignarréttarfyrirkomulagið er veikt og ríkisvaldið oft allsráðandi, oft í höndum spilltra manna. Það er vandinn.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að hin tæknilega lausn málsins eigi auðvitað að snúa að markaðsfyrirkomulaginu sem er síðan grundvallað á eignarréttarfyrirkomulagi. Þetta helst allt saman í hendur.

Það sem er ágætt líka í þessum tillögum, frú forseti, svo ég snúi mér beint að þeim, er að hér er einmitt lagt upp með að reyna að grípa til aðgerða sem snúa að ríkisvaldinu, hvað það getur gert betur í þessum málum. Það skiptir máli. Að baki þeim hugmyndum sem hér eru settar fram er að megninu til sú hugsun að við eigum að beita hvötum. Við eigum að hvetja efnahagslífið til að gera rétt.

Ég setti fram, frú forseti, ákveðna fyrirvara við nokkrar af þessum tillögum. Hér er lagður fram mikill fjöldi tillagna. Upp á langflestar þeirra gat ég skrifað en ekki allar. Ég geri grein fyrir fyrirvörum mínum í viðauka í skýrslunni og þeir eru teknir upp í þingsályktunartillögunni. Ég ætla rétt að hlaupa í gegnum það, annars vegar geri ég athugasemdir við skilning á hinni svokölluðu varúðarreglu, hvernig beri að skilja hana og hvernig beri að standa að framkvæmd þeirrar reglu fyrir opinbera aðila. Ég geri einnig athugasemdir við tillögu nr. 29 um greiðslu fyrir mengunarbótaregluna, hvernig beri að nota hana. Það sem ég legg þar upp með er að menn þurfa því miður að horfa til þess að það eru mjög erfiðir tímar núna fyrir okkur Íslendinga í efnahagslífinu og skattar hafa farið hækkandi. Ég set mig ekki á móti þeirri hugsun að menn borgi fyrir þá mengun sem þeir valda, ég tel það reyndar skynsamlegt en tel að það þurfi að fara varlega akkúrat um þessar stundir og auðvitað, sem reyndar kemur fram í tillögunum, ýta því þannig fram að þeir peningar sem eru greiddir fyrir mengun verði síðan notaðir til að hvetja til þess að finna upp og þróa mengunarbætandi tækni.

Ég geri líka athugasemdir við tillögu 37, um að hafsvæðið í kringum Ísland verði skilgreint sem ECA-svæði, og tel að það þurfi að vinna þá vinnu alla í góðu samráði við stjórnvöld, hagsmunaaðila í útgerð, flutningastarfsemi og í ferðaþjónustu, að það verði fundinn réttur hraði á því máli.

Varðandi tillögu nr. 40 þarf ég ekki að útskýra það, frú forseti, að ég er á móti þeim Auðlindasjóði sem þar er ræddur þannig að ég geri auðvitað athugasemd við þá tillögu. Síðan er tillaga 43 um skatt á bifreiðaeigendur sem ég tel ekki skynsamlegt og við tillögu nr. 20 vildi ég bóka, (Forseti hringir.) frú forseti, að við eigum að reyna að fá til okkar erlenda fjárfestingu án útgjalda úr ríkissjóði.