140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við ræðum ágæta og yfirgripsmikla þingsályktunartillögu sem fjallar kannski aðallega um sjálfbærnihugtakið í sem víðustum skilningi og í því sambandi er útfærður fjöldinn allur af tillögum sem eru taldar upp í skýrslu sem kom út síðsumars eða núna á haustdögum. Sá sem hér stendur er meðflutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu ásamt fjölmörgum þingmönnum úr öllum flokkum, þar á meðal einnig Framsóknarflokknum. Það er eins með mig og síðasta hv. ræðumann, Illuga Gunnarsson, að ég geri nokkra almenna fyrirvara við einstakar greinar en í heild sinni tel ég að þetta plagg, skýrslan og þingsályktunartillagan, sé í heild sinni mjög gott. Ég get líka vitnað til þess að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem hefur áður tjáð sig um þetta gerði einnig almenna fyrirvara við einstaka liði.

Það má segja að hér sé komið að þeim tímamótum í lífi þjóðarinnar að gera upp við sig hvernig við ætlum að byggja upp efnahags- og atvinnulíf, að hér sé komið að leiðaskiptum. Við ætlum að fara aðra leið, við ætlum að fara leið sem byggir meira á því að tryggja með ýmsum hætti að við göngum ekki of skarpt á auðlindir og nýtum okkur sjálfbærnihugtakið til að skapa hér hagvöxt um langan tíma. Það má segja að þetta sé hin leiðin. Í því sambandi er rétt að geta þess að þær atvinnutillögur sem verða kynntar á eftir í þingsályktunartillögu okkar framsóknarmanna hafa á margan hátt samhljóm við þær tillögur sem eru í þessari þingsályktunartillögu sem og í þeim tillögum sem við höfum kynnt undir nafninu plan B og gefið út sérstakan bækling um.

Ég get tekið undir margt í ræðu síðasta ræðumanns, m.a. að umhverfisumræðan á Íslandi hefur snúist dálítið öfganna á milli. Þegar við ræðum til að mynda um sjálfbærni virðist mér og mörgum öðrum sem allt of fáir átti sig á því að um 70% af þeirri orku sem við nýtum í landinu er sjálfbær, ef ekki meir. Við erum í algjörum fararbroddi í heiminum hvað það varðar. Önnur lönd komast hvergi nærri, ég held að við séum tugum prósenta framar þeim sem næstir koma og eru það þó lönd sem við berum okkur oft saman við og lítum jafnvel upp til í ýmsum öðrum málum.

Umræðan hefur aftur á móti oftar snúist um að orka sé óumhverfisvæn sem og allt sem tengist orkuiðnaði og uppbyggingu iðnaðar á grundvelli orkunýtingar. Það er slæmt. Það sem mér finnst meðal annars gott í þessari þingsályktunartillögu er að hér er reynt að skauta fram hjá þeirri öfgaumræðu sem mér hefur fundist einkenna umræðuna um umhverfismál á liðnum árum. Hér er reynt að setja saman vegvísa, tillögur og markmið í aðra átt.

Stefnumótunin í liðum a–h er svona í upphafsplagginu, með leyfi forseta:

„a. Ríkið verði fyrirmynd og skapi aðstæður fyrir grænt hagkerfi.

b. Hagrænum hvötum verði beitt til að efla græna hagkerfið.

c. Mengunarbótareglan verði grunnur að gjaldtöku.

d. Varúðarreglan verði óaðskiljanlegur hluti af efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda.

e. Grænum störfum verði fjölgað.

f. Áhersla verði lögð á að stuðla að umhverfisvænum fjárfestingum.

g. Fræðsla um sjálfbæra þróun og umhverfismál verði aukin.

h. Grænt hagkerfi Íslands verði grunntónn í kynningu landsins.“

Auðvitað geta margir haldið því fram að þetta sé froðusnakk, að ekkert standi á bak við þetta og þetta séu innantóm orð. En ef við setjum í þetta skynsamlegar leiðir og byggjum á þessum yfirmarkmiðum í að færa þetta inn í hagkerfið okkar getur það nýst okkur til framtíðar. Það er líka rétt sem hefur komið fram í ræðum þingmanna fyrr í þessari umræðu að við erum að kljást við alþjóðlegan vanda, m.a. í loftslagsmálum, og verðum auðvitað að líta á okkur sem hluta af því. Með okkar endurnýjanlegu orku getum við lagt mikið til þess hluta framleiðslunnar miðað við höfðatölu og allt sem við getum boðið upp á miðað við önnur lönd sem byggja á olíu- eða kolabrennslu.

Annar almennur þáttur sem ég vildi nefna á þeim stutta tíma sem við höfum er fæðuöryggi í heiminum. Það hefur verið fjallað um það á liðnum dögum. Matvæladagurinn er í dag, og í gær hélt hér erindi ástralskur sérfræðingur, Julian Cribb, um mikilvægi þess að tvöfalda matvælaframleiðslu í heiminum á næstu áratugum vegna mannfjölgunar. Þá kemur það líka til að á Íslandi eru gríðarleg tækifæri til að framleiða mun meiri matvöru en við gerum í dag. Við erum ekki með þessari þingsályktunartillögu að koma í veg fyrir það. Hins vegar þurfum við að nýta marga kosti sem Ísland hefur upp á að bjóða í því sambandi. Mig langar að nefna tvo þætti í tillögunum. Í lið 33 er annars vegar fjallað um að það eigi að efla lífræna framleiðslu með því markmiði að lífrænt vottaðar vörur verði 15% af landbúnaðarframleiðslu á Íslandi árið 2020. Þetta er nokkuð hátt seilst miðað við það ástand sem er í landinu í dag en líka miðað við það að þótt þær vörur sem við erum að framleiða í dag standist strangt til tekið ekki þessa vottuðu lífrænu framleiðslu eru þær á margan hátt alveg klárlega mjög vistvænar og jafnvel sjálfbærar í sjálfu sér. Þá verðum við að nefna að íslensk náttúra hrópar á næringarefni. Hún er oft og tíðum nokkuð snauð og það þarf að nýta áburðarefni til þess. Það er aftur á móti eitt af því sem ekki er hægt að gera við lífræna framleiðslu og má kallast ókostur.

Þess vegna er mikilvægt varðandi lið 39 þar sem talað er um heildarendurskoðun á löggjöf um úrgangsmál með það að markmiði að fjarlægja hindranir í vegi endurvinnsluiðnaðar á Íslandi að við höfum gríðarlega mikil áburðarefni sem við hendum í dag og ef menn vilja fara þar inn í dag og nýta þau efni, til að mynda til að auka jarðveginn til matvælaframleiðslu og hvað sem það nú er, rekast menn þar á hindranir daginn út og daginn inn. Þess vegna er þetta ákaflega mikilvægt. Þar getum við svo sannarlega aukið matvælaframleiðslu Íslands, tryggt fæðuöryggi okkar og lagt gott til matvælaheimsins.

Þegar við erum að fjalla um þessa alheimsvæðingu og þá ókosti sem fylgja til dæmis loftslagsmengun og skorti á fæðu þurfum við að átta okkur á að þótt þetta séu verkefni á alheimsvísu er auðveldast að byrja að laga til heima hjá sér. Það getum við svo sannarlega gert og með þeim hætti lagt gott til ef við gerum það svona og horfum ekki á orkunýtingu sem neikvæðan hlut, heldur hvernig við getum unnið orku af sem mestri skynsemi. Ef við horfum ekki á aukningu á matvælaframleiðslu sem eitthvað neikvætt í umhverfislegu tilliti heldur sjáum tækifærin erum við að leggja gott til hnattrænnar velferðar. Ekki síst erum við kannski að skapa okkur sérstöðu sem við eigum mjög auðvelt með vegna þess að orkan okkar er að stórum hluta endurnýjanleg.

Mig langar að nefna hérna einn eða tvo þætti enn sem ég tel jákvæða, það er í sambandi við liði 20 og 21, sérstaklega þann seinni um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Þarna er ríkur samhljómur við þær tillögur sem við munum kynna hér á eftir í sambandi við atvinnuuppbyggingu, plan B sem við framsóknarmenn erum að kynna. Það held ég að sé hið besta mál. Þeir fyrirvarar sem ég hef verið með eru almennt við einstaka liði og ég hef ekki tíma til að fara yfir þá núna. Það er fyrst og fremst þannig að við verðum að hugsa um sjálfbærni alla leið af skynsemi og vaða ekki of langt og ekki of hratt því að auðvitað verðum við að byggja hér upp atvinnu, ekki síst eftir þær fréttir sem hafa heyrst upp á síðkastið um neikvæða hluti í Þingeyjarsýslunum.