140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[15:12]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fara nokkrum orðum um atriði sem ég kom ekki að í fyrri ræðu minni. Ég var að fara yfir samhengið á milli þeirra stefnumiða sem koma fram í þingsályktunartillögunni og nefnd Alþingis um eflingu græna hagkerfisins leggur til grundvallar tillögugerð sinni. Ég fjallaði í fyrri ræðu minni um varúðarregluna og nefndi nokkur dæmi um það hvernig hún birtist síðan í einstökum tillögum um aðgerðir.

Önnur mikilvæg grundvallarregla umhverfisréttar er mengunarbótareglan, þ.e. að þeir borgi sem menga, að hún verði grunnur að gjaldtöku hjá ríkisvaldinu. Það er sérstök tillaga nefndarinnar þess efnis að fjármálaráðuneytinu verði falið að útfæra mengunargjöld í samræmi við þá reglu. Ákveðin skref hafa þegar verið stigin í þessa veru á undanförnum missirum með upptöku kolefnisgjalda, en víða á Norðurlöndunum hafa verið teknar upp fleiri tegundir mengunargjalda, svo sem á losun köfnunarefnisoxíðs og brennisteinsdíoxíðs og fleiri efna út í andrúmsloftið, svokölluð NOx- og SOx-gjöld. Svíar hafa lagt á slík gjöld frá árinu 1992, Norðmenn frá 2008 og nú síðast Danir á síðastliðnu ári. Það er tillaga nefndarinnar að gjaldtaka af þessu tagi verði nýtt til að fjármagna ýmsar af þeim tillögum sem kalla á útgjöld úr ríkissjóði, svo sem grænan samkeppnissjóð sem styrki verkefni á sviði umhverfistækni og annarrar grænnar nýsköpunar og endurgreiðslur til fyrirtækja sem fjárfesta í tæknilausnum sem draga úr mengun og bæta orkunotkun. Ég vil nefna það sérstaklega, og það er mikilvægt atriði, að við í nefndinni sjáum þetta sem tilfærslur. Hugmyndin er ekki sú að mengunargjöld auki nettótekjur ríkissjóðs, heldur renni tekjurnar aftur til atvinnulífsins í formi endurgreiðslna eða styrkja eins og ég hef hér rakið.

Ég vil líka nefna, af því að það er eðlilegt að menn spyrji sig hvað þetta græna hagkerfi sé og hverjar séu þessar grænu atvinnugreinar, að nefndin eyddi talsvert miklum tíma í að fara í gegnum þá umræðu. Niðurstaða hennar er sú að grænt hagkerfi sé ekki forskrift að tiltekinni atvinnugrein eða greinum. Það er vissulega fjallað um tilteknar grænar greinar í skýrslunni, eins og umhverfistækni, lífræna framleiðslu, græna ferðaþjónustu og vistvænan sjávarútveg, en meginsjónarmið nefndarinnar er þó hitt að græna hagkerfið eigi við allar atvinnugreinar og felist í kjarna sínum í þróun í átt til vistvænni vinnubragða og verkferla.

Ég legg mikla áherslu á þetta atriði því að okkur hættir til að staðsetja mál og verkefni á einn eða fáa bása, í eitt ráðuneyti, og gefa síðan öðrum fjarvistarsönnun frá því að láta sig málið varða. Rétt eins og með aðra málaflokka sem hafa verið áberandi á undanförnum árum, eins og jafnréttismálin eða umhverfismálin, er efling græns hagkerfis málasvið sem sker þvert á ráðuneyti og varðar þau öll. Það geta allir gert betur. Það geta allir orðið umhverfisvænni í vinnubrögðum sínum og verkferlum. Við náum ekki raunverulegum árangri nema allir, heilu samfélögin, leggi þar sitt af mörkum (BJJ: Og flokkar.) — og flokkar, sannarlega, eins og þeir hafa gert í þessu verkefni.

Í þessu samhengi vil ég nefna að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur þegar lagt fram tillögu um og lýst sig reiðubúna til að móta sérstaka aðferðafræði um það hvernig fyrirtæki geti farið í gegnum eins konar grænkunarferil að þessu leyti, þ.e. fengið leiðsögn um það hvernig þau geta gert starfsemi sína vistvænni.

Ég hef rakið hér helstu stefnumið nefndarinnar um eflingu græna hagkerfisins og nefnt ákveðin dæmi um tillögur sem þeim tengjast. Ýmsar fleiri tillögur væri ástæða til að fara í gegnum, þar á meðal að vistvæn orkunýting verði áherslusvið í eigendastefnu opinberra orkufyrirtækja, en ég mun að öðru leyti vísa á skýrslu nefndarinnar hvað það varðar.

Ég vildi fara nokkrum orðum um þá umræðu sem hér hefur farið fram og hefur að mínu mati verið mjög uppbyggileg. Ég tek heils hugar undir það sem kom fram í máli Magnúsar Orra Schrams og það er kannski það mikilvægasta sem menn þurfa að taka með sér úr þessari umræðu og þessari vinnu að umhverfismálin eru forsenda atvinnuuppbyggingar á 21. öldinni en ekki andstæða þeirra, eins og kannski hefur of oft verið viðkvæði í umræðu um atvinnumál á Íslandi.

Einnig er sú áhersla sem kom fram í máli Illuga Gunnarssonar mikilvæg, að við nýtum þau tæki sem markaðskerfið hefur gefið okkur, svo sem hagræna hvata, til að laða fram nýsköpun í þessum geira frekar en að setja niður girðingar, boð og bönn, til að kalla fram breytingar.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, um að þarna séu stefnumið sem kannski megi lýsa sem innantómum orðum, hef ég einmitt reynt í mínu máli að benda á það hvernig þessar almennu yfirlýsingar og stefnumið, til dæmis um mikilvægi mengunarbótareglunnar og varúðarreglunnar um hagræna hvata og mikilvægi umhverfisvænnar fjárfestingar, finna sér síðan stað í þeim 48 aðgerðum sem nefndin hefur lagt til. Það er mikilvægt og skiptir öllu máli ef svona vinna á að skila árangri að menn séu nákvæmir með þær leiðir sem lagt er upp með að verði farnar til að hrinda þessum almennu stefnumiðum í framkvæmd. Það var útgangspunktur nefndarinnar frá upphafi að reyna að koma með praktískar lausnir og tillögur, en eyða ekki öllum tíma sínum í almennar stefnuyfirlýsingar sem síðan þyrfti að útfæra í annarri nefnd eða öðrum starfshópi.

Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tek undir það að allt það sem kom fram í máli hv. þingmanna snertir mikilvæg svið í þeirri vinnu sem þarf að eiga sér stað hér í þinginu. Ég legg til að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar, en jafnframt verði leitað umsagnar annarra nefnda sem málið tengist helst, svo sem efnahags- og viðskiptanefndar, umhverfis- og samgöngunefndar, fjárlaganefndar og allsherjar- og menntamálanefndar.

Ég vil rétt að lokum þakka öllum nefndarmönnum, fulltrúum allra flokka, sem lögðu afar gott til þessa verks, þessa mikilvæga verkefnis, og verð reyndar að viðurkenna að það kom mér satt að segja þægilega á óvart hve góður samhljómur var meðal nefndarmanna um megináherslurnar í verkinu. Það eykur mér bjartsýni á að við getum átt samleið hér í þinginu um að koma þessu verkefni á rekspöl í íslensku atvinnulífi okkur öllum til heilla.