140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:38]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram kærlega fyrir falleg orð um þessa þingsályktunartillögu. Það segir sig sjálft að þegar ályktun felur í sér tugi tillagna erum við örugglega ekki sammála um alla þá áherslupunkta sem um ræðir. En það er gott að hv. þingmaður skuli taka undir heildarmyndina, að sú framtíðarsýn sem hér er mörkuð sé með þeim hætti að við eigum að geta þróað hana áfram í þinginu og vonandi afgreitt sem ályktun frá Alþingi sem verður þá væntanlega vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari umræðu.

Ég get vottað það að hv. þingmaður hefur fylgt vel eftir málefnum nýsköpunarfyrirtækja innan efnahags- og skattanefndar. Þar eru sameiginlegar áherslur okkar framsóknarmanna og hv. þingmanns. Það er mjög mikilvægt að við förum að hvetja til meiri fjárfestingar í íslensku atvinnulífi og meiri fjölbreytni því að það eykur styrkleika landsins til lengri tíma litið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að sú hugmyndafræði sem birtist í atvinnumálum er kannski að meginefni til hvaða skyndiaðgerðir við getum gripið á næstu tveimur til þremur árum til að fjölga störfum í samfélaginu — við erum ekki að tala um stefnu til 20 eða 30 ára sem er annað verkefni sem við þyrftum að einhenda okkur í — hvort hann telji ekki raunhæft að ráðast í þær hugmyndir sem við höfum lagt fram og teljum að geti skapað þúsundir starfa ef við tökum höndum saman um að flýta þessu máli í gegnum þingið þannig að ríkisstjórninni verði gert að fylgja því markvisst eftir.

Ég tel að við getum ekki lengur horft upp á ástandið hér í atvinnumálum. Við þurfum að fjölga störfum og þess vegna fagna ég sérstaklega að hv. þingmaður skuli lýsa yfir stuðningi við margar þær tillögur sem við höfum lagt fram.