140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:42]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var einn hlutur sem ég náði ekki að koma fram með í fyrra svari mínu við andsvari hv. þingmanns. Ég vona að hv. þingmaður komi því kannski á framfæri í hugsanlegri ræðu á eftir hver skoðun hans á breytingu á umhverfi tónlistar hér á landi er. Við erum að leggja fram mjög róttækar hugmyndir um að breyta því umhverfi. Ég held að það sé ein af mörgum nýjum hugsunum sem hér koma fram. Er hv. þingmaður tilbúinn að koma í lið með okkur til að efla þá glæsilegu atvinnugrein hér á landi sem tónlistin er og koma rekstrarumhverfinu þannig fyrir að við getum horft fram á áframhaldandi sókn í íslenskum tónlistariðnaði? (MSch: Mjög góð hugmynd.) „Mjög góð hugmynd,“ segir hv. þingmaður. Ég vona að hann fylgi henni þá eftir með tillögugerð í þinginu og styðji okkur framsóknarmenn í þeim efnum.

Hvað varðar landbúnaðinn held ég að hv. þingmaður hafi ekki lesið þær hugmyndir sem við höfum í landbúnaðarmálum í þeirri skýrslu sem kynnt var á flokksþingi framsóknarmanna. Þar kemur fram að sóknarfæri landbúnaðarins hafi trúlega aldrei verið eins góð og um þessar mundir. Fjölmörg tækifæri felast í íslenskum landbúnaði. Ég veit að það hefur stundum verið erfitt fyrir ýmsa samfylkingarmenn að sjá tækifærin sem felast í landbúnaðinum en sú staðreynd að matvælaverð í heiminum er í sögulegu hámarki og tækifæri til að nýta landsins auðlindir til að framleiða meira af gæðaframleiðslu á sviði landbúnaðarafurða eru mjög mikil hér á landi í dag. Ég er viss um að eftir mikla umræðu við hv. þingmann á næstu dögum og vikum getum við verið sammála um að tækifæri landbúnaðarins eru mikil.

Ég vil að lokum þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt (Forseti hringir.) andsvar og vonandi eigum við eftir að eiga gott samstarf um framgang þessarar tillögu í þinginu.