140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ræðu hans áðan og að fylgja þessari ágætu tillögu úr hlaði, sem ég get að mörgu leyti tekið undir og er ágætt innlegg í umræðuna varðandi sókn í uppbyggingu atvinnumála og fleira reyndar sem komið er inn á í þessari tillögu, svo sem efnahags- og skattamál og fleira því tengt. Það hefur komið fram áður í umræðunni að í sjálfu sér sé hægt að taka undir margt af því sem þar kemur fram. Það er mjög auðvelt að taka undir að skuldameðferð lítilla og meðalstórra fyrirtækja eigi að ljúka sem fyrst, ég held að við séum öll sammála um það. Og ég held að við séum öll sammála um að koma eigi til móts við þarfir einstaklinga sem ekki hafa fundið sig í framhaldsskólum og háskólum, að atvinnulausu fólki verði boðið upp á fjölbreytt úrræði við upphaf næsta skólaárs, fjármagn til kennslu í raun- og verkfræðigreinum háskóla landsins verði aukið o.s.frv. Þetta eru allt góð og gild málefni sem ég held að við getum flest tekið undir. Margt af þessu er nú þegar í gangi. Það er því bæði hægt að fagna tillögum Framsóknarflokksins hvað varðar að styðja við það sem þegar er verið að gera í þessum málum og bæta við ýmsum hugmyndum þeirra. Ég bendi á að endurgreiðsla vegna kvikmyndaframleiðslu í ár mun nema á bilinu 500–600 millj. þegar upp verður staðið. Framsókn leggur til að það verði aukið og allt í fína með það.

Það eru tvær spurningar sem mig langar að bera upp. Annars vegar varðandi það hvort gert hafi verið kostnaðarmat á þessari tillögu. Í henni felst talsverður útgjaldaauki, annars vegar aukin bein útgjöld og hins vegar breytingar sem munu fela í sér minni tekjur að því er varðar skattbreytingar og fleira í þeim dúr. Var gert kostnaðarmat við tillöguna, hvað mun hún kosta og sömuleiðis hver er ávinningurinn af henni?

Ég ætla að bíða með seinni spurninguna þangað til í síðara andsvari.