140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að ég hef 15 mínútur til að fara í andsvar við hv. þingmann. Ég þakka frú forseta fyrir hið ágæta svigrúm sem ég fæ til þess.

Flóttinn frá íslensku atvinnulífi gagnvart stefnu ríkisstjórnarinnar birtist m.a. í því hversu lítil fjárfesting er í atvinnulífinu í dag. Hún þyrfti að vera miklu meiri en raun ber vitni. Leitt er til þess að vita að hv. þingmaður getur ekki komið aftur upp í andsvar við mig en honum er frjálst að biðja um orðið. Sú arfavitlausa stefna sem ríkisstjórnin birti í vor í málefnum sjávarútvegsins, sem er undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar, þjóðarinnar, (Gripið fram í.) er eitt dæmi um hve óstöðugt rekstrarumhverfi íslensks atvinnulífs er hér á landi og stefnumið ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsætisráðherra gaf þá einkunn á dögunum að hefði verið mjög slæmt frumvarp sem hún sjálf lagði fram í þinginu fyrir einungis nokkrum vikum. Staðreyndin er sú að vegna þeirrar aðferðafræði sem þar var beitt hefur alger stöðnun verið í fjárfestingu undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, sem er sjávarútvegurinn. (BVG: Ég spurði um skattana.) — Hv. þingmaður talar enn um skattana. (BVG: Svaraðu því.) Það er orðið mjög erfitt, frú forseti, að halda þræði í ræðunni þegar hv. þingmaður heldur aðra ræðu úti í sal. Ég ætla að hvetja hv. þingmann til að fá útrás fyrir þessa tjáningarþörf með því að biðja um orðið á eftir. Ég get þá farið í andsvar við hann.

Þessar tillögur eru mjög vandlega og vel unnar og við munum að sjálfsögðu fara betur yfir þær í því nefndarstarfi sem er fram undan (Forseti hringir.) og ég hvet hv. þingmann til að koma með jákvæðu hugarfari í þá vinnu rétt eins og hv. þm. Magnús Orri Schram vegna þess að ef þessar tillögur ná fram að ganga munu þær auka atvinnu og velferð í landinu.