140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:16]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta hv. þm. Ásmund Einar Daðason. Ég ræddi ekkert um afskriftir sjávarútvegsfyrirtækja í ræðu minni, ég ræddi eingöngu um að þessi fyrirtæki hefðu fengið lán til óskyldrar starfsemi og notuðu þá peninga sem þau fengu að láni til alls annars en sjávarútvegs. Ég ræddi ekki um afskriftir og vona að ég geti vitnað í ræðu mína í þeim efnum þegar hún kemur útprentuð innan skamms.

Varðandi gjaldeyrismálin tel ég og stend við það að það sé eitt af þeim úrlausnarefnum sem við þurfum að leysa og bjóða komandi kynslóðum upp á fýsilega og varanlega lausn í þeim málum. Jafnt heimilin sem fyrirtækin í landinu eiga erfitt með að skipuleggja sig inn í framtíðina þegar sveiflurnar eru jafnmiklar og raun ber vitni á gjaldmiðlinum og ég er að sjálfsögðu ekki það blindur að ég horfi á eina lausn. Evran er góð og gild en ég er algerlega reiðubúinn til að skoða aðra möguleika svo fremi sem þeir uppfylla viðkomandi skilyrði að þjóðin sem við tilheyrum njóti meiri stöðugleika en hún býr við nú í þeim efnum. Það er einhver sú mesta kjarabót sem íslensk þjóð getur fengið í augnablikinu.

Evran er vitaskuld þeim kostum gædd að þar skiptum við í mynt sem er á öllum helstu markaðssvæðum okkar. Á milli 60 og 70% af útflutningi okkar er til Evrópu, vitaskuld er þar á meðal Bretland sem ekki er með evruna og eins Danmörk, en um 80% af innflutningi okkar kemur frá sömu löndunum.

Varðandi ríkisstjórnina segi ég enn og aftur að það á ekki að skamma (Forseti hringir.) slökkviliðið þegar verið er að vinna við brunarústir.