140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:30]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að kvennastörfunum. Konur eru í miklum meiri hluta í heilbrigðisþjónustunni og þess vegna hefur farið sem farið hefur. Auðvitað tel ég að við séum komin að þolmörkum samdráttar í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum hins vegar að endurskipuleggja það en þá hinum dreifðu byggðum líka til framdráttar vegna þess að við viljum tryggja lágmarksþjónustu hvar sem er á landinu vegna þess að það er frumréttur íbúa landsins að hafa jafnan aðgang að grunnþjónustu í heilbrigðismálum.

Þar kem ég inn á skattamálin vegna þess að ég tel að við þurfum að skilgreina grunnþjónustu ríkisins í mjög mörgum atriðum. Ég tel að ríkið sé of víða í rekstri, rekstri sem á betur heima hjá sveitarfélögunum, rekstri sem á betur heima hjá einstaklingum og fyrirtækjum, og fyrir vikið ætti að vera hægt að hagræða miklu meira í ríkisrekstrinum ef við skilgreinum grunnþjónustuna. Þá þarf heldur ekki á jafnmiklum sköttum að halda til að halda uppi þeirri ofþjónustu ríkisins sem nú er í boði. Ég hef verið talsmaður þess að leggja ekki meiri skatta á venjulegt fólk og venjuleg fyrirtæki en nú er og ég held að það hafi náðst fram. Þar erum við komin að þolmörkum og við verðum líka að átta okkur á því að við höldum nú uppi hagvexti með einkaneyslu að meginhluta og við getum ekki gengið á þann hluta hagvaxtarins.

Með sjávarútveginn í huga vil ég nefna þetta: Ég hef talað fyrir því að breytingar á sjávarútvegi megi ekki verða til þess að draga úr arðsemi þeirra sterku fyrirtækja sem þar er að finna og ég stend við það að það er engin grein atvinnulífsins sem (Forseti hringir.) getur búið við jafnmikið öryggi og sú sem fær traustan 20–30 ára aðgang að auðlindinni. Hvað mega t.d. verktakar segja í þeim samanburði?