140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Frumatvinnugreinarnar, undirstöðuatvinnugreinar landsins, hafa komið nokkuð til umræðu í tengslum við þessar tillögur hér. Eins og ég rakti áðan innihalda tillögurnar mjög margt sem er til þess fallið að auka fjölbreytileika í atvinnulífi landsins og nýsköpun. Þó má ekki gleyma því að uppbygging nýrra greina, sérstaklega nýsköpunargreina sem geta tekið langan tíma í þróun og verið dýrar meðan á undirbúningi og þróun stendur, þarf að hafa traustan grunn. Þess vegna verðum við um leið og við hugum að nýsköpun að huga að hinum sterku undirstöðugreinum og efla þær. Það er nefnilega mikill áhugi á því um allan heim að efla nýsköpun og tæknigreinar. Það eru ekki mörg lönd í jafngóðri aðstöðu til þess og Ísland vegna þess að þau skortir bæði þá sterku innviði sem við höfum, þar á ég við þróað menntakerfi, heilbrigðiskerfi, öruggt umhverfi o.s.frv., og skortir líka þá öruggu tekjuöflun sem undirstöðugreinarnar skila.

Ég nefni sem dæmi borgina Newcastle í Bretlandi sem ég heimsótti ekki alls fyrir löngu. Þar hitti ég atvinnuþróunarfulltrúa borgarinnar sem sagði mér stolt að Newcastle ætlaði að endurnýja sig, breytast úr því sem hún hafði verið, iðnaðarborg, í nýsköpunar- og tækniiðnaðarborg. Gömlu atvinnuvegirnir voru nefnilega að miklu leyti farnir svoleiðis að borgin þurfti að finna nýjar atvinnugreinar. Vonandi gengur það vel hjá þeim en vandi þeirra er hins vegar sá að þau hafa ekki þessar undirstöðugreinar, þá miklu verðmætasköpun sem þarf til að efla nýsköpunina, hafa ekki einu sinni efni á að reka menntakerfið á þann hátt sem þau þyrftu helst að gera til að búa í haginn fyrir hinar nýju greinar. Þess vegna megum við ekki missa sjónar á því að þetta helst allt í hendur; undirstöðugreinarnar og nýsköpunin.

Svo verðum við líka að huga að hinu sem ég nefndi sem forsendu þróunar og nýsköpunar, innviðum samfélagsins. Þeir hafa verið mjög sterkir á Íslandi og eru enn. Það eru hinir sterku innviðir sem hafa tryggt okkur þá stöðu sem við njótum þó enn þrátt fyrir gríðarlegt efnahagslegt áfall. Ég hef af því verulegar áhyggjur að menn séu farnir að vanrækja þessa innviði, telja þá sjálfsagða. Ég nefni sem dæmi mennta- og heilbrigðismálin. Nú höfum við rætt tillögur um mjög umfangsmikinn niðurskurð til heilbrigðismála á landsbyggðinni. Hvaða áhrif hefur þetta á möguleika þessara byggða til að þróa nýjar atvinnugreinar? Flestir hér virðast sammála um að það þurfi fjölbreytilegra atvinnulíf á landsbyggðina. Verður auðveldara eða erfiðara að fá fyrirtæki til að fjárfesta á þessum stöðum, fá fólk með til dæmis tæknimenntun til að flytja til þessara staða ef þar er ekki boðið upp á grunnþjónustu í heilbrigðismálum og menntamálum? Að sjálfsögðu verður miklu erfiðara að fá fólk til að flytja til þessara staða og fyrirtæki til að fjárfesta ef þau hafa ekki slíka grundvallarþjónustu, ef á staðnum er ekki nám þar sem börnin geta notið hins besta í íslenska menntakerfinu og ekki til staðar heilbrigðisþjónusta svoleiðis að menn geti verið öruggir um líf sitt og heilsu. Þetta eru grundvallaratriðin sem menn líta til þegar þeir taka ákvörðun um hvort þeir eigi að fjárfesta eða ráða sig til starfa.

Þegar við erum að tala um nýsköpun og nýjar atvinnugreinar megum við ekki missa sjónar á því að þær byggjast á annars vegar sterkum innviðum sem við höfum byggt upp hér á Íslandi á heilli öld og hins vegar verðmætasköpun undirstöðugreinanna til að mögulegt sé að fjármagna nýsköpunina.