140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um sókn í atvinnumálum. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Birkir Jón Jónsson og flytur málið ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins.

Það er mjög gott að menn reyni að horfa til framtíðar, því miður er of lítið gert af því. Það er ekki hægt að segja að í fjárlagafrumvarpi hæstv. ríkisstjórnar, sem á í rauninni að vera framsýn stefna, sé horft mikið til framtíðar. Þar er verið að leysa vandamál, vandamál, vandamál (BJJ: Og búa til vandamál.) og jafnvel búa til vandamál með óskaplegu flækjustigi í skattkerfinu. (Gripið fram í.)

Það er margt mjög gott í tillögunni sem ég get tekið undir, eins og t.d. að leysa eigi skuldameðferð atvinnufyrirtækja með gagnsæjum hætti. Það er ekki vansalaust hvað mönnum hefur tekist að flækja það ferli mikið og hve erfitt er að átta sig á því hvaða fyrirtæki eru yfirleitt til sölu og hvernig útboðsferlið er, þannig að það er mjög jákvætt að það komi fram.

Lagt er til að skattkerfið verði endurskoðað. Ég hefði viljað sjá að bakkað yrði með þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert því að hún hefur ekki gert neitt annað en að skaða skattumhverfi fyrirtækja.

Lagt er til að gerður verði samningur við eigendur aflandskróna. Það er nokkuð sem mér finnst að hefði átt að gera fyrir löngu síðan. Það eru ekki mjög margir sem eru megineigendur aflandskróna eða sem eru í forsvari fyrir eigendurna, kannski 10–20, og það á að sjálfsögðu að kalla þá saman vegna þess að það er þeirra hagur að íslenskt atvinnulíf gangi vel. Þá fá þeir væntanlega eignir sínar á betra gengi fyrr en ella, þannig að þau mál á að vinna með eigendunum. Örlög okkar og eigenda aflandskrónanna eru samtvinnuð.

Það var einu sinni gert að veita almennan skattafslátt til hlutabréfa- og stofnfjárkaupa og ég held að það sé nauðsynlegt að gera það aftur en það þarf að laga ýmislegt annað. Hér er lagt til að lög um einkahlutafélög og samvinnuhlutafélög verði einfölduð. Ég mundi þó vilja laga ákveðna villu sem er í þeim lögum. Það var ekki eðlilegt hversu mikið eigið fé var sýnt í íslenskum fyrirtækjum og það er greinilegt að það er eitthvað að ársreikningagerð á Íslandi þegar gífurlegar eignir hurfu eins og dögg fyrir sólu eins og einhver hefði galdrað þær burtu. Eigið fé íslenskra fyrirtækja var, eins og ég hef nefnt áður í þessum ræðustól, sem svarar fimmfaldri þjóðarframleiðslu í árslok 2007. Ári seinna var hún komin niður í núll þjóðarframleiðslu og í árslok 2009 var hún komin í mínus einfalda þjóðarframleiðslu. Maður spyr sig: Hvað varð um þá eign? Hvað er að marka ársreikninga sem sýna svona lagað?

Í vinnumarkaðsaðgerðum er lagt til að fólk sem er án atvinnu sé virkjað og reynt að koma því aftur í tengsl við atvinnulífið. Það er mjög jákvætt og ég get tekið undir mjög margt sem hér er lagt til.

Það sem ég sakna eru hugmyndir um sjávarútveginn. Þar er óleyst vandamál en fram kom í umræðunni að þar sé að vænta sérstaks máls. En þar vantar mjög stóran þátt — nú fer ég að verða leiðinlegur — og það vantar yfirleitt í alla umræðuna; það vantar að menn hugi að uppsprettu fjár. Það er nefnilega enginn peningur lánaður út nema hann sé sparaður fyrst. Það virðast Íslendingar almennt séð bara ekki átta sig á. Menn tala um að afnema eigi verðtryggingu, að setja eigi þak á verðtryggingu, að fella eigi niður skuldir, og á hinu háa Alþingi er ekki talað um neitt annað en skuldir; skuldir heimilanna, skuldir fyrirtækja, skuldir ríkissjóðs, skuldir sveitarfélaga.

Menn gleyma því að allar þessar skuldir voru einhvers staðar sparaðar. Hafi þær ekki verið sparaðar taka menn áhættu af því að það verði mikil verðbólga. Ef menn eyða meiru en sparað er myndast verðbólga þannig að það þarf að spara. Og hvar skyldi uppspretta fjár vera? Hún er í skyldusparnaði Íslendinga hjá lífeyrissjóðunum og svo höfum við að sjálfsögðu tekið inn gífurlega mikið af sparifé útlendinga, þ.e. við höfum tekið lán hjá þýskum sparifjáreigendum í stórum stíl undanfarna áratugi. Nú hefur það stöðvast.

Lífeyrissjóðirnir vaxa jú, en sú uppspretta mun stöðvast. Hvers vegna? Vegna þess að fyrst þegar lífeyrissjóðakerfið byrjaði að starfa komu bara inn iðgjöld, mjög lítill lífeyrir var greiddur út því enginn var kominn með réttindi. Það komu bara inn iðgjöld og menn höfðu heilmikið fé til að lána og lánuðu grimmt. Svo fór kerfið hægt og rólega að nálgast jafnvægi þegar það var búið að starfa í 30–40 ár og það er einmitt sá tími sem við stöndum frammi fyrir núna, þá er ég að tala um fimm eða tíu ár héðan í frá. Þá fer lífeyririnn að verða það mikill að iðgjöldin sem koma inn og raunvextirnir duga ekki til að greiða lífeyrinn eða standast á endum, þannig að það getur verið að lífeyrissjóðakerfið taki peninga út úr atvinnulífinu en dæli ekki stöðugt inn í það. Það vantar umræðu um þetta.

Hvað á þá að taka við? Jú, menn geta vonast til að útlendingar láni okkur aftur, en ég er ansi hræddur um að sú reynsla sem þeir hafa fengið hér á landi undanfarið hvetji þá ekki til þess að lána Íslendingum mikið, og ef þeir lána okkur lána þeir með mjög háum vöxtum og vaxtaálagi. Ég held því að við verðum að fara að horfast í augu við að það þarf að myndast sparnaður einhvers staðar. Frjáls sparnaður heimilanna er mjög lítill, hann er um 630 milljarðar á móti 2.000 milljörðum sem er þvingaður sparnaður í lífeyrissjóðunum. Í flestum öðrum löndum er þetta öfugt. Við verðum að fara að huga að því hvernig við hvetjum fólk til sparnaðar og það finnst mér vanta inn í þetta mál sem að öðru leyti er mjög gott, og að menn reyni að glöggva sig á hvar sparnaðurinn verður til, hvernig við getum lánað, hvernig börnin okkar geta tekið lán til að kaupa sér fasteignir, hvernig fyrirtæki geta í framtíðinni tekið lán til að fara í fjárfestingar. Þá umræðu vantar algjörlega.

Það kom því miður fram í morgun að hætt hefði verið við álverið á Bakka, það var mjög slæm frétt. Eitt af því sem olli þeim straumhvörfum var að orkuverð væri of hátt. Og hver skyldi vera meginuppistaða í orkuverði, frú forseti? Það eru vextir. Orkuverð, sérstaklega í vatnsaflsvirkjunum, minna í gufuaflsvirkjunum þar sem lánstíminn er ekki alveg eins langur. Meginuppistaða orkuverðs eru vextir sem orkufyrirtækin þurfa að greiða. Og hvaða vexti skyldi nú Landsvirkjun þurfa að greiða? Hún þarf að borga sérstakt álag vegna þess hvernig atvinnulífið er á Íslandi og vegna þess að menn hafa ekki fundið lausn á því að koma atvinnulífinu upp úr stöðnuninni er álagið á íslenska ríkissjóðinn og þar með Landsvirkjun mjög hátt. Það kemur fram í háum vöxtum sem Landsvirkjun þarf að greiða og endurspeglast svo í háu orkuverði sem er þá ekki lengur samkeppnisfært við önnur lönd sem fá hugsanlega lægri vexti.

Við þurfum því vissulega að fara að skoða uppsprettu fjár og ég legg til að hv. nefnd sem fær þingsályktunartillöguna til skoðunar bæti inn í málið að við reynum að örva og hvetja til innlends sparnaðar og hættum að ráðast stöðugt á hann eins og hæstv. ríkisstjórn gerir og hún talar líka endalaust um ljóta fjármagnseigendur. Hinn raunverulegi, upprunalegi fjármagnseigandi er alltaf heimilin sem hafa neitað sér um jeppa, ferðalög, flatskjái, stórt hús eða íbúð og hafa lagt fyrir. Í augum margra er það nefnilega af hinu illa og lítið gert af því — þó að þeir sem spara tapi nú á innstæðum alla daga vegna þess að vextir eru 2,5%, skattarnir í 2%, og síðan rýrna óverðtryggðar innstæður sem eru 80% af öllum innstæðum heimilanna, þær rýrna alla daga í 5% verðbólgu. Ég man ekki til þess að mikið hafi verið rætt um það í þessum ræðustól, það er miklu meira rætt um skuldir.