140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðninginn við tillögugerð okkar en reyndar hafa hugleiðingar hans vakið mig til umhugsunar um á hvaða vegferð við erum. Komið hefur fram að skattarnir verði hlutfallslega hækkaðir í haust ef við horfum til þess að skattþrepin munu ekki fylgja launaþróun. Enn á að sækja í vasa skattborgaranna og hækka skatta með tilheyrandi afleiðingum. Það er svo sem efni í aðra umræðu en ég velti fyrir mér hvar við endum þegar að því kemur því að um leið og menn hafa hækkað skattana og skattálögurnar hafa tekjutengingar í bótaflokkum líka verið auknar, til að mynda hvað varðar fjármagnstekjur, eins og hv. þingmaður fór yfir. Nú erum við farin að fá fréttir af því að fólk taki í þó nokkrum mæli út innstæður sínar úr bönkum vegna þess að þær eru farnar að hafa ansi víðtæk áhrif á aðrar tekjur heimilisins.

Við sjáum það líka, og við erum kannski komin í það ástand sem var á tíunda áratug síðustu aldar, að fólki finnst það ekki borga sig að hafa hærri laun en ákveðna upphæð því að um leið og það er komið yfir þá upphæð eru bótaflokkar farnir að skerðast, fólk er kannski komið í annað skattþrep og þar fram eftir götunum. Ef við höldum áfram á þeirri leið mun það verða til þess að svört atvinnustarfsemi mun aukast til mikilla muna en ekki tekjur ríkissjóðs. Allt hnígur það því að sömu niðurstöðu, að við þurfum að breyta þeirri stefnu sem verið hefur í efnahags- og skattamálum þjóðarinnar sem því miður hefur leitt af sér að tekjur ríkissjóðs hafa minnkað til mikilla muna með tilheyrandi áhrifum á velferðarkerfið.