140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.

37. mál
[18:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu. Þetta er síðasta málið sem við ræðum í dag og upp til hópa hafa jákvæðar tillögur verið til umræðu í þinginu í dag, tillögur þar sem horft hefur verið fram á veginn með jákvæðni að leiðarljósi. Þessi tillaga er akkúrat á þann veg og það vill svo skemmtilega til að ég er meðflutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu þar sem fjallað er um að hefja nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi. Það er rétt að það komi fram að ég tel að framsóknarmenn muni standa að baki þessari þingsályktunartillögu vegna þess að hún er í nokkru samræmi við þá tillögu sem þingflokkur Framsóknarflokksins mælti fyrir fyrr í dag þar sem segir meðal annars um ferðaþjónustu, en þar er tekið á öllum atvinnugreinum, að í fyrsta lagi eigi tekjur ríkisins að renna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til uppbyggingar innan greinarinnar á grundvelli heildstæðrar stefnu. Áfram heldur, með leyfi frú forseta:

„2. Hafið verði kynningarátak til að efla ferðaþjónustu allt árið. Ríkissjóður verji 350 millj. kr. til átaksins og aðilar í ferðaþjónustu leggi fram samsvarandi upphæð.

3. Markaðsmálum verði komið í farveg til lengri tíma með markvissu samstarfi ríkis, sveitarfélaga, markaðsstofa og fyrirtækja.

4. Grunnrannsóknir í ferðaþjónustu verði efldar og þær nýttar við kynningarátak, ímyndarsköpun og vöruþróun.“

Ég held, eins og heyra mátti á máli hv. þingmanns áðan, að hér sé mikill samhljómur á ferðinni, annars vegar í þessari þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður leggur fram ásamt fjölda annarra þingmanna og hins vegar í þeirri þingsályktunartillögu sem Framsóknarflokkurinn mælti fyrir í dag, um sókn í atvinnumálum, þar sem sérstök áhersla er lögð á ferðaþjónustuna. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi ferðaþjónustunnar í dag og þess hvað hún mun skipta okkur miklu máli þegar til lengri tíma er litið. Ef fram heldur sem horfir eru ekki mörg ár í að 1 milljón ferðamanna muni sækja landið heim. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á höfum við séð að þær náttúruperlur sem eru á suðvesturhorni landsins eru mjög sóttar af fjölda ferðamanna, hlutfallslega miklu meira en annars staðar á landinu. Ef fram heldur sem horfir verður ásóknin með þeim hætti að margar af þessum náttúruperlum okkar munu ekki standast áganginn, a.m.k. ekki nema við bætum aðstöðuna við viðkomandi ferðamannastaði. Það er þess vegna hárrétt ályktað að við eigum að dreifa álaginu og vekja athygli á öðrum náttúruperlum. Til að mynda eru þær ófáar í Þingeyjarsýslum og með því að beina flugi norður til Akureyrar eða Egilsstaða eftir atvikum og gera þá staði að alvöruáfangastöðum mundum við dreifa því álagi sem fylgir stórefldum ferðamannastraumi til landsins. Það felast í því mikil umhverfisáhrif að flytja hingað ferðamenn sem ferðast um landið og ef fjöldinn verður of mikill og við vanbúin til að taka á móti því fólki getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir landið okkar og fyrir náttúruperlurnar, þ.e. ef við búum ekki nægilega vel um hnútana.

Akkúrat í þessum töluðu orðum dettur mér í hug þingsályktunartillaga sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir mælti fyrir í fyrra. Nú skal það játast að ég man ekki alveg hvort hún var afgreidd en hún sneri að framtíðarstefnumótun í málefnum ferðaþjónustunnar hér á landi. Þar var komið inn á þann punkt að við þurfum að hugsa um þessar náttúruperlur og hvað landið í heild sinni getur tekið á móti miklum fjölda ferðamanna. Að sjálfsögðu viljum við þá líka gera það vel. Við þurfum að vera undir það búin að 1 milljón ferðamanna komi hingað til lands innan örfárra ára þannig að það er mikilvægt, að ég tel, að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt þar sem iðnaðarráðherra yrði falið að hlutast hið fyrsta til um að hafið yrði nýsköpunarátak í ferðaþjónustu úti á landi til að fjölga erlendum ferðamönnum utan háannatíma, bæta við áfangastöðum á landinu, svo að álag á ferðamannastaði dreifist betur, og nýta betur og efla öll þau fjölmörgu samgöngu- og menningarmannvirki sem ríki og sveitarfélög hafa fjárfest í, eins og stendur meðal annars í þessari þingsályktunartillögu.

Þess vegna finnst mér mikilvægt að við sendum frá okkur skýr skilaboð þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Þar þurfa ákveðnir grunnþættir að vera til staðar og vera í lagi, þ.e. við þurfum að hafa sæmilega öruggt umhverfi þegar kemur að uppbyggingu af þessum toga. Þá veltir maður fyrir sér hversu langt við getum gengið gagnvart niðurskurði löggæslu, til að mynda í Þingeyjarsýslum sem eru gríðarlega umfangsmikið og vítt svæði með margar náttúruperlur. Hversu hart getum við gengið fram í áframhaldandi niðurskurði í löggæslumálum í því umdæmi? Annað nærtækt dæmi er öryggi í heilbrigðisþjónustu. Það eru sjö heilsugæslustöðvar í Þingeyjarsýslum sem sinna mjög mikilvægu hlutverki. Hver verður þá framtíðarsýnin hjá okkur varðandi þá grunnþjónustu sem heilbrigðisþjónustan er gagnvart því svæði ef áfram á að skera niður? Síðan í hinu orðinu tölum við fyrir því að við viljum stórfjölga ferðamönnum á svæðinu. Að sjálfsögðu verður svæðið að vera með þá grunnþætti er tengjast opinberri þjónustu til að vera í stakk búið til að taka á móti slíkum fjölda ferðamanna sem við hv. þingmenn leggjum til. Þess vegna er mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga fái mjög ítarlega umræðu og að menn hafi alla heildarmyndina fyrir sér þegar kemur að því að bjóða upp á ferðaþjónustu á landinu allt árið um kring. Þá þurfa samgöngur að vera í lagi, þá þurfa löggæslumál að vera í lagi og heilbrigðismál svo fátt eitt sé nefnt.

Mér hefur orðið tíðrætt um ferðaþjónustuna á Norðurlandi og þá Norðausturlandi, Þingeyjarsýslum. Nú hefur verið mikið í fréttum áhugi kínversks kaupsýslumanns á að fjárfesta í ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar er talað um stórt heilsuhótel, uppbyggingu á hestabúgarði þar sem bjóða á ferðamönnum upp á að ríða um landið á hestum og skoða jafnvel norðurljósin, uppbyggingu á golfvelli og fleira mætti nefna í þeim efnum. Þessi Kínverji á ekki lögheimili í landi innan Evrópusambandsins. Ef einstaklingur innan Evrópusambandsins hefði viljað kaupa þessa jörð hefði hann mátt það en af því að hann er ekki í Evrópusambandinu verður að sækja um sérstakt leyfi til innanríkisráðuneytisins að fá að fjárfesta með þessum hætti. Það kom í ljós í síðustu viku að það tók innanríkisráðuneytið tæpar fimm vikur að svara erindi þessa kaupsýslumanns. Og hvert var svarið? Það var óskað eftir frekari upplýsingum. Hæstv. ráðherra hefur nefnt oftar en einu sinni í fjölmiðlum að þetta mál, uppbygging ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum og þar með á öllu norðausturhorni landsins, og ferðaþjónustu á Íslandi vil ég meina, sé ekki forgangsmál í ráðuneytinu. Mörg önnur mál eru þar brýnni, hefur hæstv. ráðherra sagt.

Nú spyr ég hv. flutningsmann, hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson, hvort hann sé sammála þessum áherslum hæstv. innanríkisráðherra þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustu á þessu svæði. Það hljómar ekki aðlaðandi fyrir einstakling sem vill ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu á heilsutengdri ferðaþjónustu að hafa á tilfinningunni að ríkjandi stjórnvöld séu beinlínis á móti því að slík uppbygging eigi sér stað. Mér finnst mjög mikilvægt að þá heyrist frá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar hvort hæstv. innanríkisráðherra hafi meiri hluta þingsins á bak við sig þegar kemur að þessum efnum. Ég veit að hv. þingmaður vill með þeirri þingsályktunartillögu sem hann hefur lagt fram með mínum stuðningi og fjölda annarra þingmanna efla ferðaþjónustu sérstaklega á þessu svæði með því að fjölga áfangastöðum þannig að það verður hægt að fljúga beint á flugvöllinn á Akureyri eða Egilsstöðum að utan og bjóða þannig upp á fjölbreyttara „vöruúrval“ í ferðaþjónustu. Því hefði ég haldið að uppbygging eins og á Grímsstöðum á Fjöllum væri algjört (Forseti hringir.) lykilatriði í þeim efnum.