140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.

37. mál
[18:22]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi og þakka ég hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni kærlega fyrir ágæta tillögu. Hér er um að ræða þríþætt átak þar sem talað er um að fjölga ferðamönnum utan háannatíma, samanber það átak sem nýlega var hleypt af stokkunum af stjórnvöldum og skiptir okkur öll miklu máli. Í öðru lagi er talað um að bæta við áfangastöðum ferðamanna til að dreifa álagi og í þriðja lagi er talað um að nýta betur þau mannvirki sem við eigum, bæði samgöngumannvirki og önnur mannvirki til menningariðkunar og ferðamennsku almennt.

Ferðaþjónustan er svo sannarlega einn af vaxtarbroddum samfélags okkar og við þurfum að vinna ákveðið að aukningu hennar með markvissum og stefnuföstum hætti og að sjálfsögðu eigum við að vanda okkur eins og hv. þm. Logi Már Einarsson benti á. Það skiptir máli hvernig við gerum hlutina og þó að við köllum þetta átak þá er alveg hægt að vanda sig líka í átaksverkefnum.

Vítt og breitt um landið eru miklar fjárfestingar tengdar ferðaþjónustu sem liggja í samgöngumannvirkjum sem því miður eru ekki nógu vel nýttar, sérstaklega ekki yfir vetrartímann. Þess vegna er lífsnauðsynlegt að vinna að því mjög markvisst að lengja ferðamannatímann og minni ég enn og aftur á átak á vegum stjórnvalda sem nýlega var kynnt, mig minnir að það beri nafnið Bjóðum heim. Eins og þar segir þá skiptir miklu máli að stjórnvöld leggi talsvert mikla peninga ásamt einkaaðilum í markaðsátak til að kynna Ísland sem góðan kost til ferðalaga allt árið.

Til að vinna þessu máli brautargengi skiptir mjög miklu máli að allir aðilar vinni saman. Það er algerlega nauðsynlegt til að hlúa sem best að ferðamanninum og þörfum hans og slíkt er í fullu samræmi við þá áætlun sem við vinnum eftir, sem er sóknaráætlun landshlutanna 20/20, ákveðinn þáttur í því samstarfi. En það eru svo margir þættir sem þurfa að vinna saman þegar við ætlum að vinna að markvissri og góðri ferðamennsku. Það er ferðamátinn, það er matur, það er menning, það er hvers kyns þjónusta, það er verslun, hönnun, veiðar, mér dettur í hug mitt áhugamál hestamennska, allt þetta þarf einhvern veginn að vinna saman til að ferðamaðurinn fái sem allra mest út úr ferð sinni til Íslands.

Það skiptir líka máli að við hlúum vel að menntun og rannsóknum á þessu sviði. Við megum ekki gleyma því að við höfum á tveimur stöðum á landinu mjög góða menntun hvað varðar ferðaþjónustu og þurfum að hlúa að henni og efla rannsóknir á þessu sviði.

Það skiptir líka miklu máli að við séum með til staðar vandaða áætlun um uppbyggingu ferðamannastaða og verndun þeirra. Við eigum ómetanlegar náttúruperlur sem þarf að vernda og við þurfum að horfast í augu við það, við þurfum að stýra umferð og jafnvel að hefta að einhverju leyti aðkomu þar sem þess þarf þó með ábyrgum, markvissum og vönduðum hætti. Þarna höfum við ákveðið verk að vinna því að ég held að við höfum verið svolítið sofandi í þessu. Við höfum bara viljað að allir gætu fengið að njóta allra staða og það viljum við svo sannarlega en við þurfum hugsanlega að stýra umferðinni. Við þurfum að byggja upp stíga og við þurfum að byggja upp einhvers konar svæði fyrir ferðamanninn til að geta notið náttúruperlanna án þess kannski að komast algerlega að þeim.

Eins og við vitum koma flestir ferðamenn til Íslands til að njóta náttúrunnar og vilja því gjarnan sjá annað og meira en okkar ágætu höfuðborg. Þess vegna er eðlilegt að bjóða upp á fleiri dyr að landinu en einar og mjög eðlilegt, eins og bent er á í þessari ágætu tillögu, að markaðssetja fleiri en einn flugvöll á landinu. Við skulum ekki gleyma því að minna vel og rækilega á að við eigum ferjuhöfn á Seyðisfirði. Þangað siglir farþegaferjan Norræna allan ársins hring og því hliði megum við heldur ekki gleyma. En aftur á móti þýðir kannski ekki mjög mikið að hafa hlið ef ófært er út frá því ákveðinn hluta ársins þannig að það er að mörgu að hyggja.

Varðandi farþegaferjuna þá eru farþegarnir ekki alltaf margir yfir háveturinn en þeir setja eftir sem áður svip sinn á Austurland. Eins og fram kemur í tillögum hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar gæti verið snjallt að setja saman ferðir þar sem siglt er aðra leiðina og flogið hina.

Mig langar síðan, eins og ég geri gjarnan þegar við tölum um ferðamennsku, að minna á Vatnajökulsþjóðgarð og gildi hans. Við erum búin að stofna þennan þjóðgarð og við erum búin að búa til ákveðna umgjörð í kringum hann. Við hann starfar fagfólk og við þurfum að nýta hann sem allra best sem aðdráttarafl allt árið með mismunandi nálgunum þar sem við erum annars vegar með ákveðna fræðslu, við getum líka verið með ferðalög beint upp á jökulinn með mismunandi ferðamáta. Við þurfum sem sagt að nýta Vatnajökulsþjóðgarð sem allra best og minna stöðugt á þennan stærsta þjóðgarð Evrópu.

Ég þakka kærlega fyrir þessa tillögu. Í henni er mjög góð hugmynd og nauðsynleg. Við þurfum að minna okkur sjálf á að við þurfum að vinna markvisst í ferðaþjónustunni að því að lengja ferðamannatímann, að því að nýta allt landið og þetta kemur allt ágætlega fram. Eins og fram kemur í tillögunni minni ég á að það er mjög gott að hugsa hana í víðara samhengi. Gerum tilraun með þetta á Norðurlandi og höldum síðan áfram með Austurland, Vestfirði og jafnvel fleiri staði eins og höfundur bendir svo ágætlega á.