140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.

37. mál
[18:29]
Horfa

Flm. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem farið hefur fram um þessa tillögu til þingsályktunar um nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi. Þeir hv. þingmenn sem tekið hafa til máls hafa komið inn á mörg atriði og auðvitað er þetta yfirgripsmikil atvinnugrein sem tekur til margra þátta. Hún er í sjálfu sér mjög fjölbreytt sem atvinnugrein.

Í þessari tillögu er fyrst og síðast verið að leggja áherslu á að byggja upp nýja áfangastaði og markaðssetja þá vel til framtíðar. Þetta hafa aðrar þjóðir verið að gera í mjög ríkum og auknum mæli á undanförnum árum og nægir þar að nefna okkar helstu nágranna, svo sem eins og Norðmenn sem hafa varið 120 millj. kr. á hverju ári til að byggja upp alþjóðaflugvöllinn í Björgvin og auka þar með ferðaþjónustu á fjörðum vestur í Noregi. Ég nefni líka átak Svía til að auka ferðaþjónustu á jaðarsvæði í kringum Kiruna í norðurhluta landsins sem státar af, að því er sagt er, eina starfandi íshótelinu í heimi og hefur verið aðdráttarafl ferðamanna í mjög auknum mæli á undanförnum árum. Ekki síst er hægt að nefna bæinn Rovaniemi í Finnlandi sem var nánast óþekktur sem ferðaþjónustubær fyrir örfáum árum en laðar nú til sín um 600 þúsund ferðamenn á hverju ári. Þá erum við að tala um erfiðasta ferðamannatímann, desember, enda bærinn orðinn lögheimili jólasveinsins í heimi hér. Slíkur er árangur Finna af eflingu heilsársferðaþjónustu.

Þessari tillögu, og er rétt að ítreka það, frú forseti, er ekki beint gegn einum eða neinum landshluta hér á landi. Ef við ætlum að sækja fram í auknum mæli í ferðaþjónustu þurfum við einfaldlega, eins og ég gat um fyrr í máli mínu, að dreifa ferðamönnum betur yfir árið og betur yfir landið. Við vitum að aukningin kemur í miklum mæli í gegnum Leifsstöð, þar verður engin breyting á. En ef við ætlum að nýta þá kosti í mannvirkjum og samgöngum sem þegar hefur verið ráðist í þá dreifum við ferðafólki betur yfir landið. Það er rétt að taka undir þau orð hv. þm. Loga Más Einarssonar áðan að þar þurfum við að vanda okkur. Það er ekki endilega allt fengið með því að byggja hratt upp heldur miklu fremur með því að byggja vel upp og þar er líka ástæða til að nefna ágæt orð hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur um að rannsóknir á þessu sviði eru af mjög skornum skammti og athyglisvert út af fyrir sig og mjög merkileg staðreynd að það rannsóknarfé sem íslensk stjórnvöld verja til atvinnumála er nánast einvörðungu ætlað í sjávarútveg og landbúnað, þær tvær greinar þar sem störfum mun fjölga hvað minnst á næstu árum. Ég held, frú forseti, að ég fari rétt með að það rannsóknarfé sem varið er til ferðamála sé upp undir 2% miðað við það sem fer í sjávarútveg og landbúnað nú um stundir. Engu að síður er ferðaþjónustan ef til vill á næstu árum að fara fram úr sjávarútvegi í öflun gjaldeyristekna fyrir þjóðina ef fram heldur sem horfir enda erum við að horfa á slíka fjölgun ferðamanna hér á landi á síðustu árum og áratugum að ekki verður líkt við annað en ævintýri.

Þegar ég var að byrja í fréttamennsku upp úr 1980 beið ég í nokkur ár eftir því að 100 þúsundasti erlendi ferðamaðurinn kæmi til landsins og það rættist árið 1985. Þá urðu erlendir ferðamenn hér á landi 100 þúsund en nú 30 árum síðar eru þeir orðnir 600 þúsund og ef rannsóknir norður í landi, hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála við Háskólann á Akureyri, ganga fram er þess stutt að bíða að milljónasti erlendi ferðamaðurinn komi til landsins og það verður á þeim áratug sem við lifum nú á.

Frú forseti. Það er margs að gæta í þessu máli. Ég vil geta þess sérstaklega að kostnaðurinn er tilgreindur í því máli sem hér er til umfjöllunar. Lagt er til að 75 millj. kr. verði varið á næstu þremur árum til að markaðssetja nýja ferðamannastaði, nýja áfangastaði fyrir erlenda ferðamenn, að komið verði á fjórum til sex stöðugildum til að vinna því máli fylgi á meðal erlendra þjóða. Þar getum við vissulega lært mikið af nágrannaþjóðum okkar og ég legg sérstaklega til að farið verði eftir þeim starfsaðferðum sem reynst hafa hvað best í þeim löndum sem ég nefndi áðan, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, vegna þess að árangurinn þar er mjög mikill þegar kemur að magni og gæðum.

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu segja að fjölbreytni atvinnulífsins er það sem er mikilvægast þegar kemur að auðgun landsins. Með þessari tillögu er verið að auka fjölbreytni atvinnulífsins, með þessari tillögu er ekki síst verið að fjölga kvennastörfum. Í þessari tillögu er verið að veðja á grein sem sannarlega mun vaxa og hér er verið að veðja á, að mati þess sem hér stendur, mjög arðsama grein í framtíðinni.

Vegna orða hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, sem hann lét falla í umræðunni um þingsályktunartillöguna fyrr í dag, um kínverska kaupsýslumanninn Huang Nubo, vil ég að fram komi að ég hef verið mikill talsmaður þess að íslensk stjórnvöld komi til móts við vilja hans. Það hefur verið siður okkur Íslendinga að þegar gestir ríða um héruð tökum við vel á móti þeim, byrjum að minnsta kosti ekki á að hafna þeim, bjóða þeim ekki einu sinni kaffi. Við eigum að setjast niður með þessum ágæta manni. Ég hef þá trú að hann sé að koma í góðum hug og vilji byggja upp ferðaþjónustu. Varla væri hann að veðja á rangan hest í þeim efnum enda kunnur að góðum áformum og góðum framkvæmdum á þessu sviði víða annars staðar. Ég hef því talað fyrir því að íslensk stjórnvöld setjist niður með honum og skoði þær tillögur sem hann hefur fram að færa til uppbyggingar heilsársferðaþjónustu úti á landi. Þar er verið að tala um lítinn hluta landsins og menn hafa gefið í skyn að þessi ágæti maður ætli sér að nýta landið til hluta sem falla ekki að vilja Íslendinga en hann hefur nú þegar sagst vilja afsala sér vatnsréttindum, svo sem eins og Jökulsá á Fjöllum sem rennur um þá 300 ferkílómetra sem um er að ræða.

Menn hafa líka nefnt að útlendingar eigi ekki að geta keypt upp helftina af landinu en svo er ekki, 70% landsins eru nú þegar í ríkiseigu þegar allt er talið og þar af eru 19% landsins þegar friðuð. Sú umræða er því á villigötum. Við eigum að taka á móti þessum manni og hugmyndum hans með opnum huga og sjá til þess að vilji hans sé vel nýttur og í samræmi við íslenska löggjöf og regluverk. Ef svo er ætti okkur ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka á móti uppbyggingaráformum hans á þessu svæði sem hefur upp á gríðarlega ferðaþjónustumöguleika að bjóða.

Ég vil að lokum, frú forseti, óska eftir því að málinu verði vísað til hv. atvinnumálanefndar og eftir atvikum til umsagnar hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég vona að málið fái góða umfjöllun í viðkomandi nefndum og fjölmargir gestir verði kvaddir til viðræðna við hv. þingmenn. Að mínu mati er mikilvægt mál á ferðinni sem getur aukið atvinnuveg þjóðarinnar til mikilla muna á þeim landsvæðum sem þurfa á því að halda og ekki síst fjölgað kvennastörfum.