140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi.

37. mál
[18:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega verðugt verkefni að skapa skilyrði fyrir ferðaþjónustu allt árið. Hæstv. iðnaðarráðherra hleypti af stað slíku átaki í samstarfi við 134 fyrirtæki, ef ég man rétt, á dögunum sem ber yfirskriftina Ísland allt árið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort tillagan sem hér er til umræðu geti ekki fallið undir það átak. Ég vil einnig benda á að liður í atvinnuuppbyggingu og fjölgun starfa á Suðurnesjum er einmitt fjölgun farþega um Leifsstöð og ef ég skil hv. þingmann rétt gengur tillagan út á það að fækka störfum þar en færa norður. Ég spyr hvort það sé réttur skilningur hjá mér.

Auk þess vil ég leggja áherslu á það að þegar rætt er um ferðaþjónustu á Íslandi og eflingu hennar sé litið heildstætt á málið og hagsmunir landsvæða hafðir í huga.