140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:01]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ný skýrsla eftirlitsnefndar með skuldaúrvinnslu lánastofnana er áfellisdómur yfir 110%-leiðinni og úrræðaleysinu gagnvart þeim sem eru með lánsveð. Nefndin telur að 110%-leiðin hafi verið útfærð of þröngt en bæði ríkisstjórnin og félags- og tryggingamálanefnd tóku þátt í að móta hana ásamt bönkunum og Íbúðalánasjóði. Samkvæmt nefndinni hefði 110%-leiðin verið mun fljótvirkari

1. ef miðað hefði verið við 110% af fasteignamati í stað markaðsvirðis ódýrari eigna,

2. ef aðrar aðfararhæfar eignir hefðu ekki dregist frá niðurfærslu að ákveðnu marki og

3. ef tekið hefði verið upp fríeignarmark með fastri fjárhæð.

Of þröng skilyrði fyrir 110%-leiðinni urðu til þess að lánastofnanir hófu að bjóða upp á ólíkar útfærslur. Afleiðingarnar urðu mismikil niðurfærsla tapaðra skulda þannig að þeir sem tóku lán hjá Íbúðalánasjóði fengu minna afskrifað en þeir sem tóku lán hjá hinu ríkisfyrirtækinu, Landsbankanum. Nefndin bendir á að lántakar með lánsveð hjá þriðja aðila fái minni skuldaniðurfellingar en þeir sem voru með 80–100% lán hjá bönkunum.

Frú forseti. Skuldaúrræðin eru að breytast í skuldafen og handahófskennt óréttlæti. Á þessu ber ríkisstjórnin ábyrgð ásamt félags- og trygginganefnd undir forustu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og óska ég eftir að hún bregðist við gagnrýni eftirlitsnefndarinnar.