140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í dag leggur Sjálfstæðisflokkurinn fram þingsályktunartillögu um aðgerðir í efnahagsmálum. Áður hefur Framsóknarflokkurinn lagt fram sínar tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum.

Ríkisstjórnin hefur boðað að á næstunni verði kynnt efnahagsáætlun til næsta árs en hún hefur ekki komið fram. Ríkisstjórnin hefur fram til þessa skilað auðu um efnahagsáætlun til næsta árs. Tillögur stóru stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi sýna svo ekki verður um villst að það er nóg af hugmyndum. Það er hægt að vinna bug á þessu ástandi. Það á að lækka skatta, um það eru stóru stjórnarandstöðuflokkarnir sammála. Það verður að auka framkvæmdastigið í landinu, en ríkisstjórnin hefur ekki fundið neinar leiðir til þess. Reyndar eru síðustu fréttir af framkvæmdum í landinu á hinn veginn, þ.e. að þau áform sem voru uppi á borðum séu að renna út í sandinn og menn að hætta við fjárfestingar sem vonast var til að gætu farið af stað.

Það verður líka að huga að stöðu fyrirtækjanna í landinu, sérstaklega samkeppnisstöðunni gagnvart þeim risastóru fyrirtækjum sem hér eru að myndast og eru í eigu bankanna og stóru lífeyrissjóðanna. Það er hægt að finna leiðir til að takast á við skuldavanda heimilanna.

Nú þegar rúmlega tvö ár eru liðin frá því að ríkisstjórnin tók við eru ekki enn komin nein svör um það hvaða framtíð bíður íslensks sjávarútvegs. Það eru komin rúmlega tvö ár af þessu kjörtímabili og sjávarútvegurinn í landinu er enn þá í fullkominni óvissu með það hvaða framtíð bíður hans, hvaða fiskveiðistjórnarkerfi á að gilda í landinu. Þetta er algjörlega óviðunandi ástand. Á því er hægt að vinna bug (Forseti hringir.) án frekari tafa. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum lagt fram okkar tillögur. Nú bíðum við viðbragða ríkisstjórnarinnar.