140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að fá að eiga orðastað við hv. þingmann um skatta. Ég hefði reyndar frekar viljað fjalla um frábærar skattbreytingar ríkisstjórnarinnar sem hafa leitt til þess að yfir helmingur hjóna greiðir nú lægra hlutfall af tekjum sínum í skatt en 2008 — (TÞH: Það er vegna lægri tekna.) Nei, það er vegna mjög markvissra skattbreytinga, hv. þingmaður.

Varðandi tillögur Sjálfstæðisflokksins hef ég ekki haft tök á að kynna mér þær í hörgul. Hv. þingmaður talar um virðisaukaskattsbreytingar á barnavörur. Ég held að við séum öll sammála um að það sé full ástæða til að endurskoða virðisaukaskattskerfið og vörugjaldakerfið á Íslandi en ég er ekki tilbúin á þessari stundu, hér og nú, að taka einn flokk út úr þessum kerfum og fjalla um hann sérstaklega enda hef ég ekki náð að kynna mér vel tillögur Sjálfstæðisflokksins.

Hvað varðar hvata til nýsköpunar og ívilnanir til fyrirtækja til að greiða framlög til menntakerfis, menningarmála og slíks ætla ég ekki að draga dul á það — án þess að tala kannski fyrir Samfylkinguna í heild sinni get ég talað fyrir minni persónulegu skoðun og hún er sú að það sé mun heppilegra að fyrirtæki greiði sína skatta og síðan sé menningarsamtökum gert að sækja um styrki í gegnum sjóði þar sem er úthlutað út frá jafnræði og gegnsæi og ríkisvaldið útdeili fjármunum til menntamála. Hitt er annað mál að það er mikilvægt að það sé hvati til fyrirtækja á Íslandi að stunda og stuðla að nýsköpun og hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðað að því einmitt að aðstoða fyrirtæki sem eru í nýsköpun.