140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:15]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma hingað upp og segja nokkur orð um atvinnumálin í landinu í framhaldi af þeirri ákvörðun forsvarsmanna Alcoa að hætta við áformin um álverið á Bakka sem kynnt voru í byrjun vikunnar og við ræddum reyndar talsvert í gær.

Umræðan um atvinnumál hefur, bæði í landinu og reyndar hér í þinginu, um langt árabil dálítið minnt mann á fótboltaleik. Menn hafa skipt sér í lið með og á móti tilteknum verkefnum, jafnvel tilteknum fyrirtækjum og í stað þess að skipa okkur í sveit með skjólstæðingum okkar, með þjóðinni allri, með fólkinu sem vantar vinnu, hvort sem það er í Þingeyjarsýslum eða á Suðurnesjum, hefur umræðan snúist um Bakka hér, Helguvík hinum megin og menn hafa skipt sér í sveitir með og á móti þessum fyrirtækjum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt núna þegar þetta verkefni er komið á endastöð að við drögum lærdóm af þessu. Lærdómurinn er meðal annars sá að við getum ekki sem stjórnmálamenn talað orkuna upp úr jörðinni. Við þurfum að gera raunhæfar áætlanir þegar nýting orkuauðlinda er annars vegar. Sömuleiðis getum við ekki farið fram á það gagnvart ríkisfyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem eru vörslumenn nýtingar orkuauðlindarinnar, að þeir selji orkuna á útsöluverði. Almenningur á kröfu á því að arðurinn af nýtingu auðlindanna sé hámarkaður í öllum tilvikum.

Hlutverk okkar hér í salnum er að koma með uppbyggilegar tillögur um hvernig skapa megi almenn skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu í landinu og ég fagna þeim tillögum sem hafa komið fram frá bæði Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki á síðustu dögum. Það var prýðileg umræða í gær um atvinnumál. Þar var líka fjallað um eflingu græna hagkerfisins þar sem allir flokkar eru saman á tillögunni um að fara meðal annars í fimm ára átak um að örva erlendar fjárfestingar í vistvænum fjárfestingarverkefnum. Ég skora á okkur öll að þétta raðirnar, tengja saman þessar tillögur og koma fram með heildstæða fjárfestingaráætlun um uppbyggingu til næstu ára.