140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni og hvetja til þess að leita hið fyrsta lausnar á því álitamáli sem hefur skapast varðandi manngerða jarðskjálfta sem orsakast af niðurdælingu Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði. Ég hvet til þess að menn leysi þetta álitamál áður en skaðinn verður, áður en þarna verður tjón sem menn fara svo að bítast um hver eigi að bera kostnaðinn af. Þetta er ekki einkamál Hvergerðinga, þetta er ekki einkamál þeirra sem verða fyrir barðinu á þessu núna. Ég vek athygli á því að Orkuveita Reykjavíkur og Hellisheiðarvirkjun eru ekkert sérstaklega langt frá höfuðborginni. Guð forði því, en ekki er útilokað að stór jarðskjálfti hefði áhrif hér, það er alls ekki ólíklegt eða útilokað að það geti gerst, þetta er verkefni sem við þurfum að einhenda okkur í.

Mig langar aðeins út af umræðum um tillögur og aðgerðir í efnahagsmálum að segja: Við sjálfstæðismenn komum fram með tillögur okkar í dag og eins og komið hefur verið inn á hafa framsóknarmenn líka lagt tillögur sínar fram. Við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra og í umræðum á þinginu svara bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra gjarnan þannig: Þið komið ekki með neinar lausnir, þið gagnrýnið og ekkert er á ykkur að græða þar sem þið hafið ekkert fram að færa. Nú liggja enn á ný, svart á hvítu, fyrir lausnir, tillögur okkar, okkar aðferð, okkar leið í þessum efnum.

Hv. þm. Magnús Orri Schram getur komið hingað uppfullur af sjálfshóli og sjálfsvorkunn og kvartað yfir því að hann sé í einhverjum leiðangri og að við styðjum hann ekki í því. Nei, hv. þingmaður, vegna þess að okkur hefur ekki litist á þær aðferðir sem ríkisstjórnin hefur notað. Okkur hefur ekki litist á þær aðgerðir sem farið hefur verið í. (Forseti hringir.) Nú hvet ég hins vegar hv. þingmann og hv. þingheim til að standa við stóru orðin í sambandi við samráð, samtal, samvinnu, (Forseti hringir.) skoða tillögur allra okkar flokka hér á þingi, hvaðan sem þær koma. Og förum (Forseti hringir.) að vinna saman í þágu íslenskrar þjóðar.