140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[15:52]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langaði aðeins að taka til máls í þessu máli. Ég er ein af sex flutningsmönnum. Mig langar að byrja á því að þakka 1. flutningsmanni, Siv Friðleifsdóttur þingmanni fyrir að leggja þetta mál fram og hafa til þess hugrekki og kjark, því að það var alveg ljóst í byrjun að þetta er mjög róttæk hugmynd, sérstaklega eins og málið var lagt fram fyrst. Það er þannig stundum þegar lagðar eru fram þingsályktunartillögur að menn setja fram ýtrustu kröfur og svo skoða menn málin betur á milli þinga eða í nefnd og þá taka málin breytingum, alla vega oft. Það hefur einmitt gerst í þessu tilfelli. Tillagan er svolítið breytt og aðeins mildari en ég held að hún nái alveg sama tilgangi. Ef hún nær fram að ganga held ég að hún muni hafa sömu áhrif.

Eins og kom fram í ræðu framsögumanns er það auðvitað meginmarkmið að reyna að hefta nýliðun og vernda ungmennin okkar. Þessi tillaga hefur verið gagnrýnd fyrir forsjárhyggju. Almennt er ég ekki hrifinn af forsjárhyggju, mér finnst að fólk eigi sjálft að bera ábyrgð á lífi sínu, en þegar um ungmenni er að ræða ber okkur sem samfélagi að sýna vissa forsjárhyggju og kostnaður af völdum reykinga er ekki einkamál þeirra sem veikjast eftir að hafa reykt alla ævi.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég þakka 1. flutningsmanni fyrir og tek það fram að ég styð þetta mál auðvitað, enda ein flutningsmanna þess.