140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[15:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Markmiðin með þessari tillögu eru jákvæð og göfug. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór yfir og þekkir höfum við náð árangri á þessu sviði. Við erum meira að segja með ágætisuppskrift að þessu. Við höfum unnið eftir ákveðnum leiðarljósum í ár og áratugi, við höfum rannsakað þetta betur en flestar þjóðir og erum meira að segja með leiðir sem eru kallaðar íslenska leiðin þegar kemur að baráttu gegn vímuefnum. Við höfum náð þeim árangri að notkun á tóbaki og vímuefnum hefur minnkað mikið, sérstaklega í grunnskólum. Ég tel að við eigum að vinna áfram á þeirri braut. Þar er um að ræða samstarf á milli rannsóknaraðila og þeirra sem eru í mestum samskiptum við börn og ungmenni. Auðvitað skipta heimilin mestu máli en sömuleiðis skiptir nærumhverfið, tómstundir, skóli og annað slíkt, gríðarlega miklu máli. Á þeim grunni lét ég vinna vinnu sem margir tugir ef ekki hundruð aðila komu að, bæði úr grasrótinni, fræðimannastétt og annars staðar frá. Niðurstaðan var heilsustefna sem tekur á fleiri þáttum en þessum, svo sem offitu, geðvernd o.fl.

Ég vildi vekja athygli á því að núverandi ríkisstjórn hefur í rauninni sett allar þessar áætlanir í skúffu og ekkert gert með þær. Þar voru sett tölusett markmið um það hvernig ná ætti mælanlegum árangri í þessum þáttum, ekki bara í vímuvörnunum heldur líka gegn offitu og hreyfingarleysi, í geðverndarmálum og öðru slíku. Í rauninni voru stigin þar fyrstu skrefin í því að taka á öllum þáttum, ekki bara gagnvart börnum og ungmennum heldur líka þeim sem eldri eru.

Það verður hins vegar að segjast að þarna var ekki mikið um boð og bönn. Það var eitthvað um slíkt en almenna leiðin var sú, enda hefur það gefist vel, að vera með jákvæða og uppbyggilega nálgun í þessu. Fyrirmyndir skipta gríðarlega miklu máli. Það er margsannað að þegar börn og ungmenni stunda heilbrigðar tómstundir, hvort sem það eru íþróttir, tónlist eða í æskulýðsfélögum, hefur það jákvæð áhrif, ekki aðeins fyrir þau heldur líka fyrir nærumhverfið. Til dæmis þar sem íþróttalíf er öflugt þar eru líka minni líkur á að börn og ungmenni neyti vímuefna þó að þau taki ekki beinan þátt í íþróttum sjálf.

Ég vonast til að núverandi stjórnvöld — það er nú enginn stjórnarþingmaður hér, virðulegur forseti, ef undan er skilinn virðulegur forseti sem er að sjálfsögðu líka hv. þingmaður — að þetta ágæta fólk taki sér tak og setji þetta í forgang.

Ég held að þetta sé afskaplega mikilvægt mál og ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja áherslu á það með þessari þingsályktunartillögu. Hins vegar eru þarna ákveðin atriði sem eru augljóslega snúin, t.d. eru apótekin ekkert sérstaklega mörg í landinu, þau eru 63. Síðast þegar ég skoðaði það var að minnsta kosti mjög stór hluti þeirra, ég held að það hafi verið 80%, það hefur kannski breyst núna — ég gekkst fyrir ákveðnum breytingum í smásöluumhverfi í lyfjum og vonast til að þar hafi samkeppni aukist — en þar voru tveir risar með um 70–80% af markaðnum. Það eru líkur á því að við náum ekki að þurrka út tóbaksbölið sem hefur fylgt mannkyninu í ansi langan tíma þannig að það er spurning hvort það sé skynsamlegt að koma sölunni á því til fárra aðila og sömuleiðis, ef menn ætla að gera þetta tilvísanaskylt, er eitthvað í það að heilbrigðiskerfið og heilsugæslan taki við meiru slíku. Til dæmis eru uppi hugmyndir um að tilvísanakerfi sé ekki raunhæft einfaldlega vegna þess að heimilislæknar eru of fáir. Er það eitt af áhyggjuefnunum hve sú stétt er að eldast og þó að aukin endurnýjun hafi átt sér stað núna er það ekki nægjanlegt til að taka við stórum og miklum verkefnum. ÁTVR-búðirnar eru 46 og hingað koma ferðamenn og þeir eiga kannski ekki jafnauðvelt með eða finnst sjálfsagt að fara í þær búðir til að kaupa tóbak. Þetta er eitthvað sem þarf að líta til þegar við skoðum þessi mál.

Hins vegar fagna ég allri umræðu og frumkvæði þegar kemur að því göfuga markmiði að vinna gegn því að börn og ungmenni ánetjist tóbaki, sama hvers konar tóbaki. Það er barátta sem er eilíf, það er barátta sem við þurfum virkilega að leggja miklu meiri áherslu á. Ég tel það vera skyldu stjórnvalda. Núverandi ríkisstjórn hefur hefur ekki framfylgt þeirri stefnumörkun sem kynnt var og lögð fram en opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, ýmis ráðuneyti, æskulýðsfélög og sérfræðingar, komu að þeirri stefnumótun og samþykktu hana og ef menn vilja ekki framfylgja því eiga þeir að koma með eitthvað annað og metnaðarfyllra og leggja það fram og vinna eftir því. Mér finnst því miður að áherslan hafi verið of mikið á boð og bönn í stað þess að koma með heildstæða stefnumótun sem byggir á þeim vísindalega grunni sem við Íslendingar eigum. Við eigum mikla auðlegð í þeim rannsóknum sem liggja til grundvallar þeim árangri sem við höfum náð fram til þessa.

Virðulegi forseti. Ég vil bara hvetja hv. stjórnarliða til að fara yfir þessi mál og setja þau í forgang, því að svo sannarlega hafa þau ekki verið í forgangi hjá núverandi ríkisstjórn. Því fer víðs fjarri.