140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr frekar einbeitt út í andsvar hv. þingmanns af því að hér er talað um hringamyndanir. Nú eru þessir hringir að selja lyf. Geta þessir hringir þá ekki líka selt tóbak? Þeir eru þarna, af hverju geta þeir ekki selt tóbak líka?

Ég vil líka spyrja af því að mér heyrist hv. þingmaður reyna að tala sig frá þessari apótekaleið þó að maður átti sig ekki alveg á því, það er ekki nógu skýrt hjá hv. þingmanni. Getur hv. þingmaður stutt það að tóbak fari inn í ÁTVR? Fyrst hv. þingmaður telur að heilsugæslan ráði ekki við að ávísa tóbaksseðlum, sem ég veit að hún gerir, það er ekkert mál, þá ímynda ég mér að hann sé að tala sig algerlega frá apótekaleiðinni. Ég ætla bara að hafa þetta eina spurningu: Getur hv. þingmaður sætt sig við og talið æskilegt og gott fyrir tóbaksvarnir gagnvart ungmennum að tóbak verði bara selt í ÁTVR og þá væntanlega ekki í þessum hringjum sem apótekin eru miðað við hvernig hér er talað? Þannig værum við búin að fækka sölustöðum og takmarka aðgengi að tóbaki, sem er núna ótrúlega gott, til að verja börn og ungmenni. Getur hv. þingmaður sagt já eða nei við þeirri spurningu hvort rétt sé og æskilegt að selja tóbak einungis í ÁTVR?