140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir sem gengur mjög langt. Fyrsti flutningsmaður málsins, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sagði að einungis einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefði talað. Nú er ég aðallega á Alþingi fyrir sjálfan mig og mér leiðist þegar alltaf er verið að flokka hv. þingmenn. Þetta er ekki pólitískt mál í sjálfu sér. Það er spurning um hvort banna eigi mjög óholla vöru eða ekki.

Þessi þingsályktunartillaga setur eiginlega heimsmet í forsjárhyggju og boðum og bönnum. Ég skil ekki af hverju stendur ekki bara hér efst: Tóbak er bannað. Það ætti eiginlega að standa.

Það er mjög margt sem ég hef við þetta að athuga. Í fyrsta lagi það að apótek eigi að fá tóbaksseðil frá heilbrigðisstarfsmönnum — það er gott að það var ekki lyfseðill því að lyf eiga að lækna fólk en tóbak gerir það sannarlega ekki. Ég vil taka það fram, frú forseti, áður en ég held áfram til að ég fái ekki þann stimpil á mig að ég sé hlynntur tóbaki að ég er mjög mikið á móti tóbaki svo að það sé alveg á tæru. Ég tel það mjög skaðlegt og skora á allt ungt fólk að byrja aldrei að reykja vegna þess hversu erfitt er að hætta. Það hef ég séð allt of oft. Meira að segja virtir þingmenn, sem eru mjög viljasterkir, guggnuðu fyrir lönguninni. Ég er mjög mikið á móti tóbaki. En það að framvísa tóbaksseðli frá heilbrigðisstarfsmanni er mótsögn í sjálfu sér. Hvað gerist ef heilbrigðisstarfsmaðurinn lítur á sjúklinginn og sér að hann er illa farinn af tóbaksneyslu? Á hann samt að veita honum tóbaksseðil ef maðurinn er alveg við það að drepast úr tóbaksfíkn og tóbaksneyslu? Hvar er siðferðileg ábyrgð þess sem veitir slíkan seðil í þeirri stöðu? Hvað ef menn skyldu sjá reykingamann koma út með einn pakka eða tvo og byrja að deila út sígarettum til unglinga sem stæðu þar í kring? Reykingar verða náttúrlega sérstaklega spennandi þegar þær eru stranglega bannaðar. Mér finnst að menn þurfi að fara mjög varlega í svona boð og bönn.

Ég minni á að einu sinni var talað um vímuefnalaust Ísland 2000. Það er sennilega ömurlegasta átak sem ég hef kynnst af því að það var fyrir fram dæmt til að mistakast. Það er nefnilega þannig að þó að vímuefni séu algerlega bönnuð eru þau samt notuð á Íslandi, því miður. Þau eru flutt inn og ef hv. þingmaður skyldi ekki vita það eru heilmikil viðskipti í kringum bannaða vöru sem eru alls konar vímuefni, lyf og ég veit ekki hvað þessi eiturlyf heita öllsömul sem eru til mikils skaða fyrir þjóðfélagið. Ég sé ekki að boð og bönn hafi einhvern veginn stöðvað það.

Hér á sem sagt að setja enn meiri boð og bönn með vöru sem neyslan hefur farið minnkandi á, sem ég er mjög ánægður með. Einu sinni var neyslan ef ég man rétt 27%, svo sá ég næst 22%, 20% og núna skilst mér að hún sé komin niður í 17%. Það er mjög ánægjuleg þróun sem hefur reyndar náðst með ákveðnum boðum og bönnum á veitingastöðum og víðar í opinberum byggingum. Maður sér reykingamenn híma núna undir vegg einhvers staðar í kulda og trekki sem mér finnst alltaf vera dálítið niðurlægjandi. En menn reykja samt. Ég hef enga trú á að slík boð og bönn útiloki þetta vímuefni. Ég flokka þetta undir vímuefni og ég bara óttast að neyslan muni aukast og það muni hvergi koma fram í opinberum tölum, ekki frekar en landasalan sem kemur hvergi fram í tölum um áfengisneyslu Íslendinga, hún kemur hvergi fram. Fíkniefnaneysla og allir þeir undirheimar sem byggst hafa upp í kringum hana er ekki talin með neins staðar í neyslu þjóðarinnar. Það er hvergi tekið fram hvað Íslendingar neyta mikils amfetamíns, hass, ópíums og guð má vita hvað þetta heitir allt saman.

Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að ég held að þetta sé ekki af hinu góða og muni jafnvel geta slegið til baka eins og búmerang eða bjúgverpill.